Innlent

Segir utan­ríkis­stefnu Ís­lands notaða til að skýla auð­kýfingum frá efna­hags­þvingunum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. píratar

Þingmaður Pírata segir að svo virðist sem utanríkisstefna Íslands hafi verið notuð til þess að skýla hvítrússneskum auðkýfingum frá mikilvægum efnahagsþvingunum. Þingmaðurinn hefur óskað eftir opnum fundi með utanríkisráðherra í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. 

Íslensk stjórnvöld eru sögð hafa beitt sér ítrekað fyrir því að einn áhrifamesti ólígarki í Hvíta Rússlandi og kjörræðismaður Íslands þar, sæti ekki refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins. Ástæðan sé að hann kaupi íslenskan fisk fyrir milljarða og myndu aðgerðir þýða umtalsvert tap hér.

Þetta kom fram í umfjöllun Stundarinnar í gær. Maðurinn sem um ræðir er Aleksander Moshensky.

„Ég tel þessar fréttir augljóst tilefni til þess að fara ofan í saumana á því hvernig íslensk utanríkisþjónusta og utanríkisstefna virðist hafa verið notuð til þess að skýla hvítrússneskum auðkýfingum frá mikilvægum efnahagsþvingunum,“ sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sem hefur óskað eftir fundi með utanríkisráðherra í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

„Ég tel íslensk stjórnvöld þurfa undanbragðalaust þurfa að gera grein fyrir sinni aðkomu að þessum málum. Eins vekur þetta upp spurningar um það hvaða hagsmunir stýra raunverulega för í mótun utanríkisstefnu Íslands. Við höfum látið sem svo að Ísland standi fyrir mannréttindi, lýðræði og frið á alþjóðavettvangi en þessi stóru orð mega sín augljóslega lítils ef Ísland beitir sér svo í þveröfuga átt þegar hagsmunir útgerðarinnar eru undir.“

Aðspurð hvort henni finnist koma til greina að taka hann af skrá kjörræðismanna Íslands segir hún að fyrsta skref sé að óska eftir skýringum stjórnvalda.

Hún segir að þó að það að fjarlægja hann af skrá kjörræðismanna þýði umtalsvert tap hér á landi sé ekki hægt að hörfa frá gildum mannréttinda.

„Þegar þetta eru gildin sem við setjum á oddinn í okkar utanríkisstefnu þá er erfitt að sjá hvernig hægt er að hörfa frá þeim við aðstæður eins og þessar sem eru nú í gangi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×