Sport

Gunnar fær Japana í staðinn

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Nelson snýr loksins aftur til keppni í UFC eftir að hafa síðast glímt í september 2019.
Gunnar Nelson snýr loksins aftur til keppni í UFC eftir að hafa síðast glímt í september 2019. Getty/Jeff Bottari

Nú eru aðeins ellefu dagar í langþráða endurkomu bardagakappans Gunnars Nelson á UFC-kvöld, og svo virðist sem búið sé að finna nýjan andstæðing fyrir Gunnar eftir að Claudio Silva hætti við keppni vegna meiðsla.

Samkvæmt ESPN og fleiri miðlum mun Gunnar mæta Japananum Takashi Sato, á UFC-kvöldinu í London 19. mars.

Þetta verður fyrsti bardagi Gunnars í tvö og hálft ár eða síðan að hann beið lægri hlut gegn Gilbert Burns.

Sato er 31 árs gamall og á að baki fjóra UFC-bardaga. Hann vann tvo þeirra en tapaði síðast fyrir Miguel Baeza í nóvember 2020.

Áður en að Sato samdi við UFC árið 2019 keppti hann í Pancrase heima í Japan en hann fékk tækifæri í UFC eftir að hafa unnið Matt Vaile.

Aðalbardagi kvöldsins í London, í O2 Arena, er á milli þungavigtarmannanna Tom Aspinall og Alexander Volkov.

Gunnar, sem er 33 ára, tapaði þremur af síðustu fjórum glímum sínum fyrir pásuna löngu sem hann hefur verið í frá 2019. Alls hefur hann unnið 17 UFC-bardaga en tapað fimm.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×