Umfjöllun: Ísland - Ítalía 107-105 | Í frábærri stöðu eftir spennutrylli

Sindri Sverrisson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason var Ítölum afar erfiður í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason var Ítölum afar erfiður í kvöld. VÍSIR/Bára Dröfn

Eftir algjöran spennutrylli í kvöld er Ísland á mjög góðri leið með að komast upp úr sínum riðli og á seinna stig undankeppni HM í körfubolta með glæsilegum sigri gegn Ítalíu í Ólafssal, 107-105.

Tvíframlengja þurfti leikinn áður en úrslitin réðust með mikilli dramatík og sigri Íslands, gegn einni bestu körfuboltaþjóð Evrópu sem þó vissulega var án nokkurra sinna allra bestu leikmanna sem spila í Euroleague og NBA-deildinni. 

Elvar Már Friðriksson kom Ísland í 106-100 með afar dýrmætum þristi þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en Ítalir, sem áður höfðu unnið upp forskot Íslendinga í fjórða leikhluta, náðu að minnka muninn og skapa háspennu á lokasekúndunum. 

Nico Mannion, sem lék með Golden State Warriors í NBA-deildinni í fyrra, fór á vítalínuna þegar fimm sekúndur voru eftir og staðan 107-104. Hann setti niður fyrra vítið en klikkaði viljandi á því seinna, í von um frákast sem Ítalir fengu ekki og íslenska liðið gat látið leiktímann renna út.

Tryggvi magnaður en Martin píndi sig í gegnum meiðsli

Ef þú vilt fá Ítali til að fórna höndum og hrista hausinn, reiðir og pirraðir, þá er hægt að sýna þeim pasta sem búið er að blanda kjúklingi saman við en það er líka hægt að sýna þeim Tryggva Snæ Hlinason.

Tryggvi átti algjörlega stórkostlegan leik í kvöld, angraði Ítali óhemju mikið með líkamlegum yfirburðum sínum, skoraði 34 stig, tók 21 frákast og varði 5 skot með tilþrifum fyrir framan troðfullan sal fólks sem klappaði honum lof í lófa og naut þess í botn að geta loksins mætt aftur á landsleik.

Martin Hermannsson gat ekki beitt sér sem skyldi eftir að hafa meiðst í fyrsta og öðrum leikhluta en píndi sig áfram út leikinn og endaði með 23 stig og sjö stoðsendingar. Elvar Már Friðriksson skoraði 25 stig og gaf sjö stoðsendingar og Jón Axel Guðmundsson skoraði 11 stig og tók átta fráköst.

Ísland hefur þar með unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í H-riðli, eftir að hafa einnig unnið Holland en tapað fyrir Rússlandi, og er í 2. sæti á eftir Rússum sem eru með fullt hús stiga eftir sigur gegn Hollandi í dag. Þrjú efstu liðin komast áfram á næsta stig.

Ísland og Ítalía mætast aftur í Bologna á sunnudagskvöld og undankeppninni lýkur svo í byrjun júlí þegar Ísland spilar heimaleiki við Holland og Rússland.

Jón Axel Guðmundsson var óhræddur við að keyra í gegnum ítölsku vörnina.VÍSIR/Bára Dröfn

Ísland var yfir eftir fyrsta leikhluta, 21-18, og með frábærum varnarleik í öðrum leikhluta tókst liðinu að skapa sér ellefu stiga forskot fyrir hálfleik, 44-33.

Pavel hélt Íslandi yfir

Tryggvi var Ítölum afskaplega erfiður, fiskaði stöðugt á þá villur eða setti niður öruggar körfur, reif til sín fráköst og skapaði pláss fyrir félaga sína auk þess að hálfpartinn niðurlægja gestina með því að verja skotin frá þeim.

Tryggvi var kominn með tvöfalda tvennu eftir þriðja leikhluta og staðan að honum loknum var 65-59, eftir að Pavel Ermolinskij setti niður tvo afar mikilvæga þrista til að létta álaginu af lykilmönnum liðsins.

Ítalir fengu tækifæri til að tryggja sér sigurinn

Ítalir voru afar grimmir í fjórða leikhlutanum og náðu smám saman að éta upp forskot íslenska liðsins, og unnu svo boltann þegar 27 sekúndur voru eftir. Þeir fengu því fína möguleika á að tryggja sér sigur en íslenska liðið varðist vel og kom sér í framlengingu.

Þar hafði Ísland frumkvæðið en munurinn var aldrei mikill og Stefano Tonut jafnaði metin í 94-94 til að tryggja Ítölum aðra framlengingu. Þar var íslenska liðið hins vegar sterkara eins og áður segir og vann einn sinn allra merkasta sigur í sögunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira