Sport

Ólympíumeistarinn á sínum öðrum Ólympíuleikum á aðeins sex mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ayumu Hirano fagnar gullverðlaunum sínum í nótt.
Ayumu Hirano fagnar gullverðlaunum sínum í nótt. AP/Francisco Seco

Það er einstakt að Ólympíuleikar fari nú fram með aðeins sex mánaða millibili en það er jafnframt óalgengt að fólk nái að keppa á bæði Sumar- og Vetrarólympíuleikum. Einn af Ólympíumeisturum næturinnar náði því samt og það á mettíma.

Japaninn Ayumu Hirano varð í nótt Ólympíumeistari í hálfpípu snjóbrettakeppninnar á Vetrarólympíuleikunum í Peking eftir að hafa endað keppnina með því að ná tveimur bestu ferðum keppninnar undir lokin.

Hann klúðraði fyrstu ferð og þótt ekki fá alveg sanngjarna einkunn í ferð númer tvö. Það var hins vegar enginn vafi eftir að Hirano skilaði frábærum einkunnum í tveimur síðustu ferðunum.

Hirano hafði betur í baráttunni við Ástralann Scotty James sem fékk silfur og Svisslendinginn Jan Scherrer sem fékk brons. Bandaríska goðsögnin Shaun White, sem hefur unnið þessa greina á þremur Ólympíuleikum þar á meðal fyrir fjórum árum, varð að sætta sig við fjórða sætið. White var að keppa á síðustu leikum en hann er orðinn 35 ára gamall.

Hinn 23 ára gamli Hirano var reyndar búinn að bíða lengi eftir þessu gulli því hann varð að sætta sig við silfur í þessari grein bæði á leikunum í Sochi árið 2014 sem og á leikunum í Pyeongchang árið 2018.

Ayumu hafði ekki náð að landa gullinu fyrr en í nótt en hann kannski bjó að þeirri reynslu að hafa keppt á Ólympíuleikum fyrir aðeins sex mánuðum síðan.

Hirano keppti nefnilega á hjólabretti á Ólymíuleikunum í Tókýó í ágúst síðastliðnum. Leikarnir áttu auðvitað að fara fram sumarið 2020 en fóru ekki fram fyrr en ári síðar vegna kórónuveirufaraldursins. Hirano komst reyndar ekki í úrslitin í hjólabrettakeppninni og varð þar að sætta sig við fjórtánda sætið.

Einn af þeim sem Hirano vann í keppninni í nótt var bróðir hans Kaishu Hirano sem er fjórum árum yngri en hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×