Fótbolti

Víta­spyrnu­drama er Egypta­land og Mið­baugs-Gínea voru síðust inn í átta liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mohamed Salah skaut Egyptalandi í 8-liða úrslit.
Mohamed Salah skaut Egyptalandi í 8-liða úrslit. Visionhaus/Getty Images

Sextán liða úrslit Afríkukeppninnar í knattspyrnu kláruðust í kvöld. Seint verður sagt að um opna og mikla markaleiki hafi verið að ræða en báðir leikir kvöldsins enduðu með markalausu jafntefli. Réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Malí og Miðbaugs-Gínea mættust í leik sem var ekki mikið fyrir augað. Það var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og nældu leikmenn Miðbaugs-Gíneu sér til að mynda í fjögur gul spjöld í leiknum. Ekkert var skorað og þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Santiago Eneme varð á endanum þjóðhetja í Miðbaugs-Gíneu en hann tryggði liðinu sigur eftir ótrúlega keppni sem endaði 6-5.

Í hinum leik kvöldsins mættust Fílabeinsströndin og Egyptaland. Aftur var ekkert skorað, hvorki í venjulegum leiktíma né framlengingu. Það var þó töluvert meira um færi en í hinum leiknum en inn vildi boltinn ekki, það er þangað til í vítaspyrnukeppni.

Eric Bailly, leikmaður Manchester United, endaði sem skúrkurinn en hann var sá eini sem klúðraði. Mohamed Salah, stjarna Liverpool, tók fimmtu og síðustu spyrnu Egyptalands. Það var ekki að spyrja að því, hann skoraði og tryggði sæti í 8-liða úrslitum.

Hér að ofan má sjá hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum og hvaða lið geta mæst í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×