Erlent

Robert Durst er dáinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Robert Durst er dáinn.
Robert Durst er dáinn. Getty/ Myung J. Chun

Morðinginn og auðkýfingurinn Robert Durst er dáinn. Durst var 78 ára og var að afplána lífstíðardóm fyrir morðið á vinkonu sinni Susan Berman þegar hann lést í morgun. 

Að sögn lögmanns Durst dó hann í morgun úr hjartaáfalli. Durst hafði undanfarna mánuði glímt við ýmis heilsufarsvandamál, þar á meðal krabbamein í þvagblöðru en þá hafði hann nýlega verið settur á öndunarvél vegna Covid-19. TMZ greinir frá. 

Durst var á síðasta ári dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á vinkonu sinni Susan Berman, en hann skaut hana til bana á heimili hennar í Beverly Hills í Kaliforníu í desember árið 2000. Grunur er um að Berman hafi ætlað að stíga fram með upplýsingar um hvarfið á fyrstu eiginkonu Durst, Kathie, sem hvarf árið 1982. 

Durst komst aftur í kastljósið árið 2015 eftir að hann samasem játaði að hafa myrt fólk í heimildarmyndinni The Jinx: The Life and Deaths of Robert Durst. Hann hafði verið í viðtali fyrir myndina, brugðið sér á salernið og sagt þar inni, enn með hljóðnemann á sér að hann hafi „drepið þau öll.“

Fjallað var um furðuleg atvik í lífi Durst í heimildarmyndinni, til dæmis möguleg tengsl hans við hvarf eiginkonu sinnar á níunda áratuginum og svo morðið á Berman. Þá var einnig fjallað um í myndinni þegar Durst var sýknaður af morði nágranna hans í Texas árið 2001.

Durst fæddist 12. apríl 1943 í New York. Faðir hans var auðugur fasteignamógúll og var Durst, elsti sonur hans, arftaki veldisins sem metið er á milljarða dala. Hann giftist hinni tvítugu Kathie árið 1973. 

Áratug síðar tilkynnti Durst hvarf hennar. Hann sagðist hafa keyrt Kathie á lestarstöð í smábænum í New York ríki sem þau bjuggu í og sagðist aldrei hafa séð hana eftir það. Að hans sögn var Kathie á leið til New York þar sem hún stundaði læknanám. 

Árið 2000 flutti hann til Texas, þar sem hann dulbjó sig sem eldri konu. Ári eftir flutninginn fannst limlest lík nágranna hans í ruslatunnum og Durst var grunaður um morðið. Durst flúði úr haldi lögreglu en var síðan handtekinn í Pennsylvaníu og var síðan sýknaður af morðinu árið 2003. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×