Sport

Óð í íþróttatreyjur: „Var sífellt suðandi um búninga þegar ég var yngri“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er einhvern tímann of mikið af treyjum?
Er einhvern tímann of mikið af treyjum? Samsett

Þegar kemur að söfnunaráráttu standa Íslendingar mörgum ef ekki flestum þjóðum framar, það skiptir litlu máli hvort það séu skór, Iittala-skálar, Omaggio-vasar eða þá íþróttatreyjur. 

Hér að neðan er rætt við nokkra einstaklinga sem eiga það öll sameiginlegt að eiga fleiri íþróttatreyjur en góðu hófi gegnir. Voru þau spurð sex spurninga þar sem þau voru beðin um að kafa aðeins ofan í söfnunaráráttu sína ásamt því að þau þurftu að gera upp á milli treyjanna sinna.

Spurningarnar voru eftirfarandi:

A. Hversu margar treyjur áttu?

B. Hvað kom til að þú byrjaðir að safna íþróttatreyjum?

C. Úr hversu mörgum íþróttum koma treyjurnar (handbolta, körfubolta, fótbolta, annað).

D. Hvaða lið er vinsælast?

E. Uppáhalds treyja?

F. Nýjasta treyja?

„Keypti hana þegar ég fór á Final4 í Köln 2019, það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

Íris Kristín Smith er það sem við köllum kameljón þegar kemur að treyju söfnun. Treyjurnar koma úr alls fimm íþróttagreinum, þar á meðal hafnabolta.

Hluti af safninu hennar Írisar.Íris Kristín

„Ég taldi 48 treyjur hér heima en svo á ég eitthvað af gömlum treyjum heima hjá mömmu og pabba. Myndi segja að í heildina eigi ég 50 til 60 treyjur í dag. Þurfti því miður að losa mig við slatta af treyjum þegar ég flutti þar sem þær taka svo mikið skápapláss.“

„Þegar ég var yngri þá keypti bróðir minn i alltaf treyjur fyrir mig þegar hann fór til útlanda, þannig að þegar ég varð eldri fór ég einfaldlega sjálf að kaupa treyjur handa mér.“

„Treyjurnar koma úr fimm íþróttum: Handbolta, fótbolta, NFL, körfubolta og hafnabolta.“

„Ég myndi segja að Liverpool sé vinsælasta félagið en flestar treyjurnar mínar eru Fram treyjur, enda spilaði ég með Fram í mörg ár.“

„Uppáhalds treyjan mín er líklegast Vezsprém handbolta treyjan mín. Ég keypti hana þegar ég fór á Final4 í Köln 2019, það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

„Nýjasta treyjan er svo Liverpool treyjan frá síðustu leiktíð, 2020-2021.“

„Hef verið treyjukarl alveg frá því man eftir mér“

„Þetta eru um 150 treyjur í heildina sýnist mér,“ sagði treyjufíkillinn Anton Sverrir Jenson.

„Það er góð spurning. Ég hef verið treyjukarl alveg frá því man eftir mér. Ég spilaði körfubolta og fótbolta upp öll unglingsárin og svo hefur þessi árátta bara aukist með aldrinum. Það má segja að þetta sé orðið að einhverskonar fíkn eða þráhyggju,“ sagði Anton Sverrir kíminn er hann reyndi að finna rökrétta ástæðu fyrir treyjukaupum sínum undanfarin ár. 

„Þetta eru mestmegnis fótbolta- og körfuboltatreyjur, eflaust svona 60/40 ef ég skipti þeim upp. Svo er ein og ein NFL-treyja þarna inn á milli.“

„Það eru mínir menn í Tottenham Hotspur, allur vörulistinn (e. catalog). Treyjur, æfingafatnaður, ferðafatnaður og þar fram eftir götunum. Einnig er mikið frá hinum liðunum mínum; Sporting Lissabon, Philadelphia 76ers sem og mikið ítalskt.“

Anton Sverrir átti einkar erfitt með að gera upp á milli treyjanna sinna og valdi góðar fjórar sem uppáhaldstreyjurnar sínar.

Treyjan sem Harry Kane klæddist á Laugardalsvelli.Anton Sverrir

„Þessi er erfið. Áritaða Harry Kane treyjan sem hann klæddist í leik Íslands og Englands á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni er allavega meðal þeirra. Svarta Minnesota Timberwolves-treyjan frá 2003/2004 tímabilinu með Kevin Garnett á bakinu er einnig í uppáhaldi.“

„Útitreyja Tottenham frá 2005/2006 tímabilinu – síðerma frá Kappa, gul og blá á litinn – með Edgar Davids aftan á er einnig í uppáhaldi. Að lokum er það Jason „White Chocolate“ Williams #55 treyjan þegar hann var nýliði í NBA-deildinni með Sacramento Kings.“

„Nýjasta treyjan sem ég á er Venezia FC 2021/2022 heimatreyjan, svört og gyllt frá Kappa.“

Að lokum vildi Anton Sverrir koma því á framfæri að síðermatreyjur eru ekki tabú og opna þurfi umræðuna um fegurð þeirra.

„Síðermatreyjur eru alger klassík. Það er virkilega sorglegt að sjá hvernig þær eru að detta alfarið úr tísku. Sama á við Kappa-treyjur, þær fyrirgefa nákvæmlega ekki neitt en eru svo sannarlega geitin í treyjuleiknum.“

„Ég var sífellt suðandi um búninga þegar ég var yngri. Þetta var bara allt svo töff.“

„Þetta eru í heildina á milli 120 og 150 treyjur myndi ég halda,“ segir Einar Kárason, forfallinn treyjufíkill frá Vestmannaeyjum.

„Knattspyrna. Fótbolti. Ég byrjaði, eins og svo margir, að horfa á fótbolta mjög ungur. Þá voru glæsilegar treyjur, óþarflega stuttar stuttbuxur og svartir takkaskór allsráðandi. Þetta var allt svo töff. Fyrsta treyjan var að ég held Arsenal treyja, og með henni Nottingham Forest stuttbuxur. Undarleg samsetning.“

„Ég var sífellt suðandi um búninga þegar ég var yngri og elska að eiga í dag mitt eigið kreditkort sem fær heldur betur að finna fyrir söfnunaráráttunni.“

„Ég á nánast bara fótboltatreyjur. Það leynast örfáar ÍBV handkaststreyjur í safninu ásamt stakri Los Angeles Lakers-treyju með Kobe Bryant á bakinu.“

Týr lifir góðu lífi í fataskáp Einars.Einar Kárason

„ÍBV og Manchester United eru leiðandi en West Ham og hið goðsagnakennda félag Týr fylgja fast á eftir.“

Einar á einnig erfitt með að gera upp á milli treyjanna sinna enda er það líkt og að gera upp á milli barnanna sinna samkvæmt sumum söfnurum.

„Ég fæ lúmskt kvíðakast yfir þessari spurningu. Í dag hugsa ég að það séu Wrexham og Luton Town-treyjunar, ásamt svörtu West Ham United, (auðvitað með Jesse Lingard á bakinu). Svo eru ÍBV treyjunar frá pabba stórglæsilegar. Einnig á ég goðsagnakennda Víkings Reykjavík treyju sem ég hreinlega veit ekki hvar er niðurkomin í dag en sú er einstaklega glæsileg.

Nýjasta treyjan hans Einars.Einar

„Nýjasta treyjan er varabúningur Wrexham. Fallega grænn með stórkostlegu hálsmáli og vafasömu nafni og númeri á bakinu. Þeir vita sem vita,“ sagði Einar að endingu og þvertók fyrir að fara nánar út í söguna á bakvið nafnið eða númerið.

„Gaman að skoða og kaupa mismunandi treyjur.“
Hver man ekki eftir Marcos Rojo?Daði

„Ég á 157 treyjur,“ sagði Daði Ingólfsson, Kópavogsbúi í húð og hár, um treyjusafn sitt. Hér var ekkert verið að giska enda heldur hann nákvæma skrá yfir allar þær treyjur sem hann festir kaup á.

„Þetta hófst allt með áhuga á Manchester United og Valencia. Síðan er bara mjög gaman að skoða og í kjölfarið kaupa treyjur. Sérstaklega mismunandi treyjur, ef treyjan er flott eða liðið skemmtilegt þá er það alltaf þess virði að splæsa í treyju því til minningar … svo er bara komið safn.“

„Bara fótbolti,“ sagði Daði en hann hefur aldrei fundið fyrir þeirri þörf að versla íþróttatreyjur úr öðrum íþróttagreinum.

„Ég hef stutt Manchester United frá blautu barnsbeini og það kemur því lítið að flestar treyjurnar séu þaðan, 48 stykki í heildina.“

„Þó ég eigi flestar Manchester United-treyjur þá er það Valencia-treyja sem er í uppáhaldi. Það er heimatreyjan frá 2000/2001 tímabilinu með Gaizka Mendieta #6 aftan á.“

„Ég festi nýverið kaup á markmannstreyju Parma með Gianluigi Buffon #1 á bakinu,“ sagði Daði að endingu en að sama skapi býst hann við að fá eins og 1-2 tvær treyjur í jólagjöf og því gætu mörg svörin breyst eftir aðeins nokkrar klukkustundir.

Daði stóðst ekki mátið og festi kaup á treyju eins og þeirri sem Buffon klæðist hér.EPA-EFE/ELISABETTA BARACCHI



Fleiri fréttir

Sjá meira


×