Sport

Endurkoma Söru Sigmunds byrjaði í snjóbrekku í Dúbaí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir ræðir við Sam Briggs á fundinum fyrir keppni en Briggs hefur tekið forystuna á mótinu.
Sara Sigmundsdóttir ræðir við Sam Briggs á fundinum fyrir keppni en Briggs hefur tekið forystuna á mótinu. Instagram/@dxbfitnesschamp

Sara Sigmundsdóttir er í ellefta sæti og ekki efsti íslensku stelpnanna eftir fyrsta daginn á Dubai CrossFit Championship sem hófst í morgun í snjóhöllinni í Dúbaí.

Sara er að keppa á sínu fyrsta móti eftir krossbandsslit en hún fór í aðgerðina fyrir aðeins átta mánuðum.

Fyrstu greinarnar á mótinu innihéldu hlaup upp og niður snjóbrekku þar af önnur með þyngingarvesti en hin á milli þess að keppendur tóku á því í skíðavélum.

Sara endaði í sjöunda sæti í fyrstu greininni og svo í fjórtánda sæti í grein tvö þar sem var sprettur upp og niður skíðabrekkuna með þyngingarvestið.

Þuríður Erla Helgadóttir er efst íslensku stelpnanna en hún situr í áttunda sæti og er með átta fleiri stig en Sara. Þuríður Erla varð í tíunda sæti í fyrstu grein en í sjöunda sæti í grein tvö.

Oddný Eik Gylfadóttir er í fimmtánda sætinu eftir þennan fyrsta dag.

Reynsluboltinn Samantha Briggs byrjaði mótið mjög vel en hún er í forystunni með fimm stigum meira en þær Kristin Holte frá Noregi og Laura Horvath frá Ungverjalandi sem eru jafnar í öðru sæti.

Briggs vann fyrstu grein og varð fjórða í grein tvö en Holte vann grein tvö og varð fimmta í fyrstu grein. Horvath varð önnur í grein tvö en í fjórða sætinu í fyrstu greininni.

Þuríður Erla er 45 stigum frá efsta sætinu en Sara er 53 stigum á eftir Samönthu Briggs.

Næstu greinar fara fram á morgun en þá verða keppendur komnar í hefðbundnari aðstæður á Dubaí tennisleikvanginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×