Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Grindavík 85-76 | Stjarnan á leið í undanúrslit

Árni Jóhannsson skrifar
Stjarnan hafði betur gegn Grindavík í átta liða úrslitum VÍS bikars karla í kvöld.
Stjarnan hafði betur gegn Grindavík í átta liða úrslitum VÍS bikars karla í kvöld. Vísir/Bára

Stjörnumenn tryggðu sér sæti í undanúrslitum VÍS bikars karla í körfubolta með góðum níu stiga sigri gegn Grindvíkingum, 85-76.

Það voru Grindvíkingar sem byrjuðu leikinn mun betur í kvöld og þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af leiknum var staðan 4-14 og Stjörnumenn þurftu að taka leikhlé til að ráða ráðum sínum því þeir voru alls ekki byrjaðir. Eftir leikhléið þá náðu Stjörnumenn tveimur góðum áhlaupum en Grindvíkingar voru heilt yfir betra liðið í fyrsta leikhluta sem lauk í stöðunni 22-26.

Grindvíkingar byrjuðu aftur betur í öðrum leikhluta en nú voru heimamenn fljótari að taka við sér og óg eftir 10-0 sprett þá náðu þeir að jafna í stöðuna 35-35 og komast yfir. Heimamenn komu lagi á sóknarleik sinn hann hafði verið óreiðukenndur í upphafi en bæði lið voru síðan á pari varnarlega þannig að úr varð körfuboltaleikur sem var í miklu jafnvægi. Grindvíkingar áttu síðan lokaáhlaupið eftir að heimamenn höfðu náð sex stiga forskoti og minnkuðu muninn niður í tvö stig áður en gengið var til búningsherbergja.

Í seinni hálfleik byrjuðu heimamenn sterkar og náðu örlitlu forskoti áður en Grindvíkingar náðu að minnka muninn í eitt stig 56-55 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Þá náðu heimamenn sínum besta sprett og þar með öllum völdum á leiknum. Staðan var 69-57 þegar minna en ein mínúta var eftir en saga þriðja leikhluta er sú að gestirnir úr Grindavík klikkuðu á örugglega um átta vítaskotum og glöggir lesendur geta örugglega séð að það hefði skipt sköpum í að halda leiknum jafnari fyrir lokaátökin. Heimamenn náðu að salla niður stigunum sem gerði það að verkum að þeir voru 10 stigum yfir fyrir loka fjórðung leiksins.

Grindvíkingar náðu svo ekki að nýta sér það að varnarleikur þeirra var góður í fjórða leikhluta en oft á tíðum fóru þeir mjög illa með sóknir sínar ásamt því að geta ekki keypt sér körfu þegar mest lá við. Heimamenn náðu að sigla leiknum heim næsta örugglega en Grindvíkingar náðu muninum minnst niður í fimm stig á lokamínútunni en boltinn vildi ekki niður fyrir þá þannig að Stjörnumenn gátu klárað leikinn af vítalínunni.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn gerðu mjög vel í að halda Ivan Aurrecoechea niðri í dag en hann skorar að jafnaði yfir 20 stig í leik en í kvöld var hann ekki með nema átta og sex þeirra komu í fyrri hálfleik. Það gerði það að verkum að mjög oft voru gestirnir þvingaðir í erfið skot sem duttu ekki sem hafði síðan, örugglega, áhrif á sjálfstraust þeirra þegar þeir fengu fín skot. Varnarleikur Stjörnunnar skóp þetta ástand og þegar þeir náðu takti í sinn sóknarleik þá gerðu þeir út um leikinn.

Hvað gekk illa?

Hér stöldrum við við vítanýtingu gestanna en hún var afleit. Þeir skiluðu níu vítum niður úr 22 tilraunum og skipti það máli í leik sem í raun og veru var í jafnvægi en annað liðið náði bara ekki að setja stig á töfluna. Svo vildu skotin utan af velli ekki niður heldur.

Bestir á vellinum?

Robert Turner III var stigahæstur sinna manna í Stjörnunni en hann skoraði 23 stig og tók með þeim 11 fráköst og þar af fjögur sóknarfráköst. Hjá gestunum var það Ólafur Ólafsson sem skoraði mest eða 25 stig og þegar Grindvíkingar fá þannig leik frá honum þá sigra þeir nánast undantekningalaust. Í kvöld var því miður undantekning því liðsfélagar hans náðu ekki sínum besta leik og því fór sem fór.

Hvað næst?

Grindvíkingar eru dottnir úr leik í VÍS bikarnum og geta farið að einbeita sér að deildinni en Stjörnumenn verða með í undanúrslitum og eru líklega spenntir að sjá hverjir mótherjar þeirra verða þar.

Daníel Guðni: Þetta er bara galið dæmi

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, segir að ef liðið hefði sett eitthvað af vítum niður þá hefði niðustaðan mögulega verið önnur.Vísir/Bára

„Við fáum ekki nógu góð tækifæri inn í teig en þeir gerðu okkur það mjög erfitt fyrir að athafna okkur þar“, sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfar Grindavíkur þegar hann var spurður hvað hafi gerst hjá hans liði sóknarlega í seinni hálfleik þegar hans menn lutu í gras fyrir Stjörnunni í Garðabæ í átta liða úrslitum VÍS ikarsins í körfubolta. Fyrri hálfleikur hafði verið í fínu jafnvægi en leiðir skildu í seinni hálfleik þar sem Stjörnumenn virtust vera með öll völd á leiknum.

Þá var vítanýting Grindvíkinga ekki nógu góð en þeir settu ekki nema níu víti niður í 20 tilraunum og var Daníel spurður út í það hvort hann hefði ekki þegið örlítið betri nýtingu þar.

„Jú þetta er bara galið dæmi. Þetta hefði verið leikur ef eitthvað af þessu hefði farið niður. Leikurinn hefði allavega þróast allt öðruvísi ef það hefði verið meira jafnvægi í þessu í lokin og við hefðum ekki þurft að sækja svona hart að þeim til að reyna að jafna metin. Þetta er miður. Þetta var alveg glatað.“

Grindvíkingar byrjuðu vel í haust en hafa tapað nokkrum leikjum undanfarið og var Daníel spurður að því hvort hann sæi eitthvað í fljótu bragði hvað væri að hjá hans mönnum.

„Það er kannski kominn einhver fílingur hjá okkur að við séum eitthvað góðir en við þurfum að fara að rífa okkur í gang og fara að gera hlutina betur öllum stundum. Við áttum góðan leik við Stjörnuna í síðasta leik sem gekk nokkuð vel en í síðasta leik við ÍR vorum við mjög flatir og lélegir. Byrjuðum þennan leik mjög sterkt en en það vantar kannski líka örlítið upp á róteringuna í framherja stöðuna sem ég þarf að finna lausn á.“

Grindvíkingar eru með nýjan leikmann en er hann að gera það að verkum að eitthvað ójafnvægi hefur gert vart við sig hjá Grindvíkingum?

„Það gæti vel verið. Hann þarf bara að komast betur inn í hlutina hjá okkur. Hann var samt að fá mjög fín skot í kvöld en bara hitti ekki úr þeim. Þegar besti leikmaðurinn í liðinu þínu hittir ekki þá er þetta mjög erfitt. Stjörnumenn gerðu okkur þetta mjög erfitt í þriðja leikhluta og þetta var mjög krefjandi eftir það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira