Erlent

Scholz tekur við af Merkel: „Þetta eru klár kaflaskil“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Merkel hefur verið kanslari Þýskalands í hartnær sextán ár. 
Merkel hefur verið kanslari Þýskalands í hartnær sextán ár.  Vísir/AP

Olaf Scholz tók formlega við embætti kanslara Þýskalands í morgun og þar með lauk sextán ára embættistíð Angelu Merkel. Prófessor í stjórnmálafræði segir að um sé að ræða kaflaskil í evrópskum og þýskum stjórnmálum þar sem erfitt er að ofmeta áhrif Merkel.

Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz var í morgun kjörinn kanslari Þýskalands af þýska þinginu og tók hann formlega við embættinu skömmu fyrir hádegi að íslenskum tíma. Hann tekur við embættinu af Angelu Merkel, sem hefur verið kanslari í sextán ár, lengur en nokkur annar kanslari í sögu Þýskalands.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir Merkel hafa sett mark sitt á bæði evrópsk og þýsk stjórnmál.

„Angela Merkel hefur verið áhrifamesti leiðtogi Evrópu núna í mjög langan tíma og kannski svona síðasti af þessum risastóru fígúrum í evrópskum stjórnmálum, þannig að skuggi hennar verður ansi langur,“ segir Eiríkur.

Hann segir Merkel hafa fest sig rækilega í sessi sem heimsleiðtogi, sérstaklega í kjölfar flóttamannakrísunnar árið 2015, og að erfitt sé að ofmeta hennar áhrif.

„Það verður erfitt að fara í skó Angelu Merkel og fylla út í það rými sem að hún hefur tekið sér bæði innanlands og svo líka í evrópskum stjórnmálum,“ segir Eiríkur. 

„En eigi að síður má segja að Merkel hafi nú kannski líka rutt brautina fyrir Þýskaland til áhrifa á heimsvísu, sem er undir eftirmanni hennar komið að stíga inn í.“

Tíminn muni síðan leiða í ljós hver áhrif Scholz verða.

„Þetta eru klár kaflaskil, bæði í þýskum og evrópskum stjórnmálum og það er auðvitað bara undir Scholz komið hver áhrif Þýskalands verða á hans tíð,“ segir Eiríkur. Hann bendir þó á að það hafi verið einkenni hjá þýskum stjórnmálum hversu lengi kanslarar hafa setið.

„Það tók líka Merkel töluvert langan tíma að ná þeirri stöðu sem hún öðlaðist þannig það er ekkert óeðlilegt að það muni taka Scholz líka sinn tíma, að festa sig í sessi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.