Innlent

Hlaupið náð hámarki og á hraðri niðurleið: Sjáðu myndir RAX frá Gríms­vötnum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gígurinn sem vísindamenn á vegum Almannavarna reyna nú að komast að hvenær myndaðist.
Gígurinn sem vísindamenn á vegum Almannavarna reyna nú að komast að hvenær myndaðist. Vísir/RAX

Íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um 75 metra og hlaupið þar náði að öllum líkindum hámarki liðna nótt. Ragnar Axelsson ljósmyndari, þekktur undir nafninu RAX, flaug yfir svæðið í gær og myndaði sprungur ofan í Grímsvötnum, undir klettabeltum við skálana á Grímsfjalli.

Jarðfræðingar hafa rýnt í einhverjar myndanna með von um að geta fundið út hvenær gígurinn á myndinni hér að ofan myndaðist.

Bjarki Friis Kaldalóns, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Vísi nú í kvöld að verulega hafi tekið að hægjast á sigi íshellunnar. Þá væri svokallaður hlaupórói á hraðri niðurleið og hafi verið það síðan í nótt.

„Líklega náði hlaupið hámarki í nótt. Það var tekin rennslismæling í morgun og þá var rennslið 2.800 rúmmetrar á sekúndu. Það var 2.600 rúmmetrar á sekúndu á sama tíma í gær.“

Bjarki segir þó óljóst hversu langt yfir þeim 2.800 rúmmetrum sem mældist hlaupið fór, þar sem stöðugar mælingar séu ekki framkvæmdar á rennslinu. Talið sé að um 3.000 rúmmetrar á sekúndu hafi runnið um Gígjukvísl. Vísindamenn þurfi þó tíma til að rýna í gögnin til að geta slegið því föstu.

Þá hafi eina skjálftavirknin sem mælst hafi á svæðinu verið vegna ísskjálfta, sem myndast þegar íshellur brotna með tilheyrandi látum.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir sem Ragnar tók á flugi í gær.

Stór sprunga í ísnum.Vísir/RAX
Vísir/RAX
Vísir/RAX

Að neðan má svo sjá mynd sem Njáll Fannar Reynisson hjá Veðurstofunni tók. 

Jarðvísindamenn hjá Almannavörnum vilja komast að því hvenær þessi gígur myndaðist.Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×