Sport

Óbólusettir fá ekki keppnisrétt á Opna ástralska

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Novak Djokovic
Novak Djokovic EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Til þess að fá keppnisrétt á Opna ástralska meistaramótinu í tennis þá þurfa keppendur að hafa gengist undir bólusetningu við Covid-19. Þetta sagði stjórnandi mótsins, Craig Tiley, í gær.

Uppi hafa verið mörg misvísandi skilaboð um hvort bólusetning verði skilyrði fyrir keppnisrétti á mótinu, sem er eitt af risamótunum fjórum í Tennis. Stjórnmálamenn í Ástralíu hafa til að mynda látið hafa eftir sér að bólusetning yrði ekki krafa. Tiley tók af allan vafa í gær og bætti því við að það verða áhorfendur á mótinu sem fer fram 17.-30. janúar í Melbourne.

Samkvæmt nýjustu gögnum eru um 80 af 100 stigahæstu tennisköppum heims í karlaflokki bólusettir en stóra spurningin er hvort að besti tenniskappi heims, Novak Djokovic, muni af þessum sökum ekki taka þátt í mótinu. Djokovic hefur ekki viljað gefa upp hvort hann hafi þegið bólusetningu eða ekki.

Reglurnar í Ástralíu hvað varðar ferðalög eru einar þær ströngustu í heiminum. Allir sem koma til landsins þurfa að undirgangast sóttkví í 14 daga. Þetta voru kröfurnar á mótinu sem fór fram síðastliðin janúar en það liggur ekki alveg fyrir hversu löng sóttkvíin verður hjá keppendum á mótinu sem hefst eftir tæpa tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×