Erlent

Grunur um að herinn hafi hylmt yfir morð breskra hermanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rose Wanyua heldur á mynd af systur sinni, Agnesi Wanjiru.
Rose Wanyua heldur á mynd af systur sinni, Agnesi Wanjiru. epa/Daniel Irungu

Hershöfðinginn Mark Carleton-Smith segist blöskra ásakanir þess efnis að breskir hermann kunni að hafa átt þátt í morðinu á konu í Kenía árið 2012. Segist hann munu vinna með yfirvöldum að því að upplýsa málið.

Lík Agnesar Wanjiru, 21 árs, fannst í rotþró við Lions Court-hótelið í bænum Nanyuki, nærri þjálfunarbúðum breska hersins. Hennar hafði þá verið saknað í tvo mánuði. Rannsókn leiddi í ljós að hún hafði verið stungin og sundurlimuð.

Sunday Times greindi frá því að hermaður sem hefur verið sakaður um morðið hafi játað eftir að félagar hans gáfu hann upp. Þá hefði annar hermaður greint yfirmönnum frá morðinu á sínum tíma en þeir hefðu ekki gripið til neinna aðgerða.

Einstaklingar innan Verkamannaflokksins hafa kallað eftir rannsókn á því hvort hylmt hafi verið yfir morðið innan hersins.

Samkvæmt Guardian hætti Wanjiru í námi og gerðist vændiskona til að sjá fyrir barni sínu. Hún sást síðast nóttina 31. mars 2012, þar sem hún yfirgaf bar í Nanyuki í fylgd tveggja breskra hermanna. Lík hennar fannst fyrir aftan herbergi þar sem hermennirnir dvöldu.

Rannsóknardómari komst að þeirri niðurstöðu árið 2019 að Wanjiru hefði verið myrt af einum eða tveimur breskum hermönnum. Hann sagði að blóð og brotinn spegill hefðu fundist á herbergi á Lions Court-hótelinu og að yfirhylming hefði mögulega átt sér stað.

Dóttir Wanjiru, sem nú er 10 ára, dvelur nú hjá móðursystur sinni.

„Við erum fátæk en við munum ekki þegja. Ég veit að breskir hermenn myrtu hana. Allt sem ég get gert núna er að biðja fyrir því að þeir náist,“ sagði hún í samtali við Times.

Guardian greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.