Sport

Jón Gunnlaugur: Hallar á okkur í hverjum einasta leik

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga.
Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga. Víkingur

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari nýliða Víkings í Olís deildinni í handbolta er ósáttur með dómgæsluna í fyrstu umferðum mótsins.

Það kom fram í viðtali við hann eftir leik Víkings og Fram í Víkinni í kvöld þar sem Framarar unnu tveggja marka sigur, 25-27.

„Strákarnir gáfu allt í þennan leik og ég get ekki annað en verið stoltur af þeim. En að sama skapi erum við svo virkilega nálægt því að taka fyrsta sigurinn og hann hlýtur að detta inn í næstu leikjum. Við höfum allavega eitthvað til þess að byggja ofan á.“

„Ég verð að segja að persónulega finnst mér rosalega auðvelt að mæta hérna og dæma á móti nýliðum. Mér finnst halla á okkur í hverjum einasta leik. Í lok leiks vorum við einu marki undir og það voru 90 sekúndur eftir, Fram hefðu átt að fá rautt spjal og við hefðum átt að fá boltann en það er ekkert dæmt. Afþví þeir sáu það ekki. Og ég kalla bara eftir því héðan í frá að dómararnir skoði sín mál, mæti hérna og dæmi eins og menn. Því ég er mjög ósáttur með þetta,“ sagði Jón Gunnlaugur ósáttur.

„Við áttum að fá víti og tvær mínútur, trekk í trekk í leiknum. Það er aðeins dæmt víti hjá okkur en Fram fá víti og tvær mínútur í hvert skipti sem þeir fá tækifæri til þess. Það vegur gríðarlega djúpt í svona leik eins og þessum sem er rosalega jafn.“

„En ég er að sama skapi gríðarlega stoltur af strákunum og skilaboð til þeirra: við erum ótrúlega nálægt þessu.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.