Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Fram 25-27 | Víkingar enn í leit að fyrsta sigrinum

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Stjarnan Fram undanúrslit í Coka Cola bikarnum í handbolta HSÍ 2021
Stjarnan Fram undanúrslit í Coka Cola bikarnum í handbolta HSÍ 2021 Foto: Daniel Þór/Daniel Þór Ágústsson

Fram vann sinn þriðja sigur í röð er þeir mættu liði Víkings í Víkinni fyrr í kvöld í 5. Umferð Olís deildar karla. Fram var með yfirhöndina allan tímann en þrátt fyrir gott áhlaup Víkings tókst því ekki að skáka forystu Fram sem sigruðu með tveimur mörkum, 25-27.

Fram náði forystunni strax á fyrstu mínútu og var munurinn orðinn fjögur mörk eftir aðeins sex mínútna leik. Víkingur gaf hins vegar í og minnkaði stöðuna í 5-4 aðeins örfáum mínútum síðar en misstu hana síðan aftur niður. Mikill hiti var í leiknum en eftir aðeins tólf mínútur höfðu bæði lið fengið dæmda á sig sitthvora brottvísunina. Fram héldu góðri forystunni það sem eftir leið af fyrri hálfleik og var munurinn fjögur mörk, 14-10 fyrir Fram, þegar flautað var til hálfleiks.

Þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik lifnaði Víkingur við og tókst að minnka muninn í tvö mörk eftir að hafa verið 3-4 mörkum undir nær allan leikinn. Mikill rígur skapaðist þar með á milli liðanna og var aragrúi dæmdur af vítum og brottvísunum stóran hluta síðari hálfleiks.

Víkingi tókst að minnka muninn í eitt mark þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum og mátti finna fyrir gríðarlegri spennu inni á vellinum sem og í stúkunni. Fram voru þó alltaf skrefi á undan og héldu forystunni út. Lokatölur 25-27.

Afhverju vann Fram?

Fram voru með yfirhöndina allan leikinn en þeir sýndu það algjörlega að þeir voru sterkara liðið í kvöld. Heilt yfir var Fram mun agaðara bæði í vörn og sókn. Þrátt fyrir að hafa misst forystuna niður nokkrum sinnum héldu þeir þó út. Markvarslan var hálfgerður lykill hjá báðum liðum.

Hverjir stóðu upp úr?

Enn og aftur var Vilhelm Poulsen markahæstur í liði Fram eins og í öllum hinum leikjunum þeirra í deildinni. Hann skoraði sex mörk og var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson með fimm mörk. Lárus Helgi átti mjög góðan leik í markinu en hann var með 20 varða bolta eða 44% markvörslu.

Í liði Víkings var Jóhann Reynir Gunnlaugsson markahæstur með átta mörk. Jovan Kukobat var frábær í marki Víkings í leiknum en það er honum að þakka fyrir að munurinn hafi ekki verið meiri. Hann var einnig með 20 varða bolta.

Hvað gekk illa?

Bæði lið áttu sína kosti og galla í dag. Vörnin var hálfgert ábótavant báðum megin en þökk sé markmönnum beggja liða hafði það ekki stórkostleg áhrif á úrslitin. Þrátt fyrir nokkuð gott spil báðum megin þá vantaði upp á það að leikmenn myndu nýta færin sín, en það voru alltof mörg dauðafæri sem fóru í vaskinn í leiknum.

Að mínu mati tel ég að leikgleðin sé í raun það sem Víkingi vantar til þess að ná í stig í deildinni.

Hvað gerist næst?

Víkingur mun gera sér ferð í Mosfellsbæinn í næstu umferð þar sem þær munu mæta Aftureldingu. Leikurinn fer fram næstkomandi fimmtudag. Á föstudaginn mun Fram leika gegn ÍBV á heimavelli í virkilega spennandi leik þar sem 3. sætið er í húfi.

Stefán Darri: Þetta hafðist

„Þetta hafðist. Við þurftum svolítið að kreista þetta út í lokin en við gerðum þetta óvenju jafnt. Við vorum flottir til þess að byrja með en þeir voru svo bara pödduflatir og við fórum að gera þetta eins og við færum að fá færin of auðveldlega. Við fórum kæruleysislega í skotin, þau voru ekki af fullum krafti. Það kom líka smá fát á okkur í sóknarleiknum og við náðum ekki nógu góðu flæði.“

„Það hefði alveg getað verið minni munur í hálfleik en hann hefði líka alveg getað verið meiri. Markmennirnir voru í mjög stórum hlutverkum báðum megin í dag.“

Markvarslan fór virkilega batnandi í seinni hálfleik sem og sóknarleikur Víkings sem skiptu yfir í að vera sjö í sókn á móti sex varnarmönnum Fram.

„Við fórum svolítið að klúðra skotum sem við erum vanalega vanir að skora úr. En við erum líka oftast nokkuð góðir þegar lið á móti okkur fara í sjö á móti sex í vörn. En það var bara ekki alveg nógu góð hreyfing í dag. Mér fannst við ekki vera að ná réttum tímasetningum þegar við vorum að fara út að pressa en þetta hafðist.“

Jóhann Reynir: Vorum rosalega nálægt þessu

Jóhann Reynir var sáttur með sína menn þrátt fyrir tveggja marka tap. Jón Gunnlaugur, þjálfari Víkings var virkilega ósáttur með dómgæsluna í leiknum en þetta hafði Jóhann Reynir að segja um hana:

„Mér fannst dómgæslan ágæt í dag. Það eru dómar hér og þar sem falla ekki með okkur og falla ekki með Fram en ég hef ekkert að kvarta undan dómurunum. Það er frammistaðan okkar sem skiptir máli.“

„Við vorum rosalega nálægt þessu. Okkur vantaði eiginlega bara fyrri hálfleik. Hann var ekki til staðar í dag. Við spiluðum hægan sóknarleik og vorum of mjúkir í vörninni. Á góðum degi hefði Jovan átt að taka fimm bolta í viðbót þar. En síðan verður þetta allt í lagi í seinni hálfleik. Vörnin smellur saman. Við spilum ágætan sóknarleik. Það gekk vel í sjö á sex og það er í raun aðallega fyrri hálfleikur sem fór með þetta hjá okkur.“

„Ég myndi halda það að fyrst að það gekk svona ágætlega að spila sjö á sex í dag að við munum nýta það meira. Alveg klárlega.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.