Innlent

Telur að skotið hafi verið á dráttar­vél: „Hefndar­gjörningur vegna á­greinings“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Íbúi á Vatnsleysuströnd segist þess fullviss að skotið hafi verið á dráttarvél í hans eigu með þeim afleiðingum að rúða brotnaði. Hefur hann ákveðna aðila grunaða, en lögregla rannsakar nú málið.
Íbúi á Vatnsleysuströnd segist þess fullviss að skotið hafi verið á dráttarvél í hans eigu með þeim afleiðingum að rúða brotnaði. Hefur hann ákveðna aðila grunaða, en lögregla rannsakar nú málið.

Virgill Scheving Einarsson á þrjár jarðir á Vatnleysuströnd og býr á Efri-Brunnastöðum I. Hann vaknaði við mikinn hávaða í nótt og sá í kjölfarið bíl keyra af lóðinni. Dráttarvél Virgils hafði verið skemmd og telur hann að skotið hafi verið á dráttarvélina.

Virgill segir að þrjú gler á dráttarvélinni hafi verið brotin og tjónið hlaupi á nokkrum hundruðum þúsunda. Hann sé þó sem betur fer tryggður. Lögreglan hafi komið í kjölfarið og eytt töluverðum tíma í að skoða vettvanginn.

Virgill Scheving Einarsson, landeigandi á Vatnsleysuströnd heldur því fram að skotið hafi verið á dráttavél hans. Hann kallaði lögreglu til, en ekkert liggur enn skýrt fyrir um málavexti.

„Lögreglan var hér í nótt en þeir sáu ekkert nema að bara að það var brotin hliðin úr dráttarvélinni. Það eru þrjú gler sem að voru brotin. Þeir halda að það hafi verið með sleggju en við höldum að það hafi verið með afsagaðri haglabyssu, bara úr bíl, látið vaða í hliðina,“ segir Virgill.

Lögreglan á Suðurnesjum segir málið til rannsóknar

Lögreglan á Suðurnesjum staðfestir í samtali við fréttastofu að málið sé til rannsóknar. 

„Það var farið í eignarspjöll þarna á Vatnsleysuströnd í nótt en meira hef ég ekki um þetta að segja,“ segir varðstjóri Lögreglunnar á Suðurnesjum í samtali við fréttastofu. 

Varðstjórinn segir að ekkert bendi til þess að skotið hafi verið á dráttarvélina. Málið sé ekki rannsakað með tilliti til mögulegrar skotárásar.

Grunar ákveðna aðila

Virgill er myrkur í máli í samtali við fréttastofu og vill lítið gefa upp um mögulegar ástæður skemmdarverksins, fyrr en hann ræðir aftur við lögregluna. Hann segist þó hafa ákveðna aðila í huga og telur að um hefndargjörning hafi verið að ræða.

„Það er hefndargjörningur vegna ágreinings þar sem að menn hafa staðið á sínum rétti og undið ofan af gömlum ósiðum. Það var bara sett harka í þetta. Það er bara það, að land sem maður er þinglýstur á, það á maður og ekkert meira. Ef einhverjir vilja fara á hverjum degi yfir land sem þeir eiga ekki þá stoppar maður það af.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×