Sport

NFL leikmaður tók á móti dóttur sinni í forstofunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dawuane Smoot fagnar í leik með liði Jacksonville Jaguars.
Dawuane Smoot fagnar í leik með liði Jacksonville Jaguars. Getty/Julio Aguilar

NFL leikmaðurinn Dawuane Smoot eignaðist dóttur í gær en hann tók meiri þátt í fæðingunni en flestir feður.

Smoot er 27 ára gamall varnarmaður og hefur spilað með Jacksonville Jaguars síðan félagið valdi hann í nýliðvalinu árið 2017.

Eiginkona hans Aumari fór af stað um miðja nótt og þau höfðu ekki tíma til að fara upp á spítala. Hann tók því á móti dóttur sinni Ahlani Moon Smoot í forstofunni.

Smoot var nýkominn heim frá London þar sem hann var í byrjunarliðinu þegar liðið hans Jacksonville Jaguars mætti Miami Dolphins á sunnudaginn. Jaguars tókst þar að enda tuttugu leikja taphrinu og vinna mjög langþráðan sigur.

Samkvæmt upplýsingum frá Jacksonville Jaguars þá þurfti Smoot fyrst að grípa eiginkonu sína þegar hún hneig niður í forstofunni á leiðinni út í bíl.

Hann tók síðan sjálfur á móti barninu en var með sjúkraflutningamenn í símanum sem leiðbeindu honum meðal annars að klippa á naflastrenginn.

Móður og barni heilsast vel og því var þetta ævintýri sem endaði vel.

Smoot skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Jacksonville Jaguars í mars síðastliðnum en hann fær fjórtán milljónir Bandaríkjadala fyrir þau eða 1,8 milljarð íslenskra króna.

NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.