Erlent

Banda­ríkin að­stoði Afgani en viður­kenni ekki yfir­ráð Tali­bana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sumir Afganir hafa brugðið á það ráð að selja persónulegar eigur sínar til þess að eiga fyrir mat, eða til þess að komast burt frá Afganistan.
Sumir Afganir hafa brugðið á það ráð að selja persónulegar eigur sínar til þess að eiga fyrir mat, eða til þess að komast burt frá Afganistan. Marcus Yam/Los Angeles Times

Talibanar, sem nú fara með stjórn í Afganistan, segja að fulltrúar bandarískra stjórnvalda hafi samþykkt að veita Afgönum mannúðaraðstoð, að loknum fyrstu viðræðum aðilanna frá því Talibanar tóku völd í landinu í ágúst.

AP-fréttaveitan greinir frá því að fulltrúar Talibana hafi fullyrt þetta að loknum viðræðunum, sem fram fóru í Doha, höfuðborg Katar, nú um helgina. Bandaríkin neiti hins vegar að viðurkenna stjórn Talibana í landinu. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafi þá ekki viljað tjá sig um viðræðurnar strax að þeim loknum.

Fulltrúar Talibana segja viðræðurnar hafa gengið vel og að Bandaríkjastjórn hafi samþykkt að veita Afgönum fjárhagslegan stuðning, en efnahagsástandið í landinu er ekki gott. Þannig hafa margir Afganir brugðið á það ráð að selja eigur sínar til að eiga fyrir mat, eða til að komast burt frá Afganistan.

Fyrir fram höfðu bandarísk stjórnvöld gert það ljóst að þótt gengið yrði til viðræðna við Talibana fæli það ekki í sér viðurkenningu á rétti þeirra til að stjórna í Afganistan.

Berjast ekki við hlið Bandaríkjamanna

AP hefur eftir Suhail Shaheen, talsmanni Talibana, að bandarísk stjórnvöld hafi verið fullvissuð um að Talibanar myndu ekki leyfa öfgahópum að hreiðra um sig í landinu og gera árásir á önnur ríki.

Þrátt fyrir það höfnuðu Talibanar því um helgina að vinna með Bandaríkjunum í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, ISIS, en samtökin hafa sótt í sig veðrið í Afganistan eftir fráhvarf Bandaríkjahers þaðan í ágúst.

ISIS hafa að undanförnu lýst yfir ábyrgð á fjölda árása í landinu, meðal annars sjálfsvígsprengjuárás á mosku í borginni Kunduz, þar sem 46 týndu lífi og tugir særðust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×