Sport

Naomi Osaka ekki lengur meðal þeirra tíu bestu í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka á tískusýningu í New York á dögunum.
Naomi Osaka á tískusýningu í New York á dögunum. Getty/Kevin Mazur

Japanska tennisstjarnan Naomi Osaka er dottin út af topp tíu listanum yfir bestu tenniskonur heimsins í dag.

Osaka var síðast í efsta sæti heimslistans í fjórar vikur til og með 8. september 2019 en hefur hrapað niður listann að undanförnu enda ekki mikið að keppa.

Hún hefur alls verið best í heimi í 25 vikur á ferlinum því hún var efst á listanum í 21 viku frá janúar til júní 2019. Osaka hefur unnið fjögur risamót á ferlinum.

Undanfarið hefur lítið gengið inn á tennisvellinum þegar hún hefur þá verið með yfir höfuð. Hún er ekki á topp tíu í fyrsta sinn síðan 2018.

Osaka dróg sig úr keppni á bæði Opna franska meistaramótinu sem og á Wimbledon mótinu fyrr á þessu ári til að einbeita sér að andlegri heilsu sinni. Hún tók sér líka hlé frá tennis eftir að hafa dottið út í þriðju umferð á opna bandaríska meistaramótinu.

Naomi er ein af risastóru íþróttastjörnum heimsins sem hafa vakið athygli á pressunni sem er á þeim á tímum samfélagsmiðla og stigvaxandi umfjöllunnar.

Osaka var á heimavelli á Ólympíuleikunum í Tókýó og í stóru hlutverki á opnunarhátíðinni þar sem hún kveikti Ólympíueldinn. Gengið hennar í keppninni var ekki eins gott því hún datt þar út strax í þriðju umferð.

Hún er nú dottin niður í tólfa sæti heimslistans. Hún ætlar ekki að koma til baka í tennisinn fyrr en fer að klæja í puttana á nýjan leik.

Hin átján ára gamla Emma Raducanu, sem vann opna bandaríska mótið á dögunum, er komin upp í 22. sæti listans. Ástralinn Ashleigh Barty er áfram í efsta sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×