Körfubolti

Dagur Kár ekki með Grinda­vík í vetur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagur Kár mun leika á Spáni í vetur.
Dagur Kár mun leika á Spáni í vetur. Vísir/Bára Dröfn

Grindvíkingurinn Dagur Kár Jónsson mun ekki leika með Grindavík í efstu deild karla í körfubolta hér á landi í vetur þar sem hann hefur samið við spænska liðið Ourense Baloncesto. Hann segist spenntur fyrir vetrinum og telur þetta vera góða áskorun.

Hinn 26 ára gamli Dagur Kár spilaði stórt hlutverk í liði Grindavíkur í fyrra. Spilaði hann alls 20 leiki með liðinu og skilaði 17 stigum, sjö stoðsendingum sem og þremur fráköstum að meðaltali í leik.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dagur Kár heldur í víking en hann lék um tíma í Austurríki með liðinu Raiffeisen Flyers Wels. Hann kom svo heim til Íslands árið 2019 og hefur leikið með Grindavík allar götur síðan.

Ourense leikur í Leb Plata-deildinni á Spáni sem er þriðja efsta deild. Liðið var í næstefstu deild á síðustu leiktíð en féll, metnaðurinn ku hins vegar vera mikill samkvæmt Degi og er stefnan sett beint aftur upp.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri og þetta verður góð áskorun fyrir mig. Er mjög þakklátur fyrir viðbrögð Grindvíkinga við þessari ákvörðun og einnig hversu vel mér hefur verið tekið þar síðustu ár,“ sagði Dagur Kár í viðtali við Karfan.is.

Stöð 2 Sport mun halda áfram að sýna frá ACB-deildinni í körfubolta í vetur þar sem Martin Hermannsson og Tryggvi Snær Hlinason leika til að mynda listir sínar.


Spænski körfuboltinn, ACB, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. ACB er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×