Sport

Neitað um undanþágu vegna trúarskoðana

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Andrew Wiggins keyrir á körfuna gegn Minnesota Timberwolves
Andrew Wiggins keyrir á körfuna gegn Minnesota Timberwolves EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Andrew Wiggins, framherja Golden State Warriors í NBA deildinni, hefur verið neitað um undanþágu frá bólusetningu vegna Kórónuveirunnar. Wiggins sótti um undanþáguna á grundvelli trúarskoðana.

Ástæða undanþágubeiðnarinnar er sú að samkvæmt nýjum reglum um stóra viðburði í San Francisco þá þurfa allir þátttakendur að vera bólusettir. Ef ekki mega þeir einungis taka takmarkaðan þátt, og þá alltaf með grímu. Það gerir körfuboltamanni erfitt fyrir. Golden State Warriors spilar heimaleiki sína í Chase Center í San Francisco.

Hinn kanadíski Wiggins, sem skoraði 18,6 stig að meðaltali í leik í deildinni í fyrra og tók aukinheldur 4,9 fráköst, sótti um undanþágu frá bólusetningarreglunum á grundvelli trúarskoðana. Heilbrigðiseftirlit San Francisco hafnaði þeirri beiðni seint í gærkvöldi og er þátttaka Wiggins í deildarkeppninni því í óvissu en NBA deildin hefst 20. október næstkomandi.

NBA deildin hefur sett sér reglur um að allir sem taka þátt í leikjum NBA deildarinnar, starfsmenn, þjálfarar og áhorfendur þurfa að vera bólusettir. Hins vegar náðist ekki samkomulag við leikmannasamtök deildarinnar um skyldu til bólusetningar og er talið að allt að 15% leikmanna deildarinnar séu ekki bólusettir.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.