Sport

Gætu tekið kannabis af listanum yfir bannefni eftir að Sha'Carri missti af ÓL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mörgum þótti ósanngjarnt að Sha'Carri Richardson fengi ekki að keppa á Ólympíuleikunum eftir að kannabis greindist í sýni hennar.
Mörgum þótti ósanngjarnt að Sha'Carri Richardson fengi ekki að keppa á Ólympíuleikunum eftir að kannabis greindist í sýni hennar. getty/Patrick Smith

Alþjóðalyfjaeftirlitið, WADA, skoðar nú hvort það eigi að fjarlægja kannabis af listanum yfir bannefni.

Þessar fréttir koma í kjölfar þess að bandaríski spretthlauparinn Sha'Carri Richardson missti af Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að kannabis fannst í sýni hennar eftir úrtökumót fyrir leikana. Sha'Carri hljóp á sjötta besta tíma sögunnar í 100 metra hlaupi, 10,72 sekúndum, á úrtökumótinu.

Eftir að Sha'Carri féll á lyfjaprófinu var tími hennar strokaður út, hún fékk mánaðar bann og missti þar af leiðandi af Ólympíuleikunum. Sha'Carri er upprennandi stjarna í frjálsíþróttum og þótti líkleg til afreka í Tókýó en hún þarf að bíða í þrjú ár eftir því að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum.

Bann Sha'Carri þótti umdeilt, það er að hún hafi verið útilokuð frá Ólympíuleikunum vegna efnis sem hjálpar henni ekki á hlaupabrautinni. Bandaríska lyfjaeftirlitið og bandaríska frjálsíþróttasambandið sögðust finna til með Sha'Carri en sögðu jafnframt að þau þyrftu að fylgja reglunum.

Alþjóðalyfjaeftirlitið ætlar nú að endurskoða reglurnar um kannabis og hvort það eigi að vera áfram á listanum yfir bannefni. Málið verður tekið fyrir á næsta ári.

Sha'Carri sagðist hafa reykt kannabis til að hjálpa sér að takast á við dauða móður sinnar. Úrtökumótið fyrir Ólympíuleikana fór fram viku eftir andlát hennar.

Elaine Thompson-Herah frá Jamaíku vann 100 metra hlaupið á Ólympíuleikunum. Hún hljóp á 10,61 sekúndum sem er Ólympíumet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×