Sport

Íþróttahreyfingin geti gert töluvert betur en vandamálið samfélagslegt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Skjáskot/Stöð2

Viðar Halldórsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að íþróttahreyfingin geti gert mun betur þegar kemur að menntun ungs íþróttafólks. Hann vonar að lærdómur verði dreginn af máli KSÍ og þá varar hann við því að allt íþróttafólk sé sett undir hatt ofbeldismenningar.

Mál KSÍ og ofbeldi landsliðsmanna í fótbolta hefur farið framhjá fáum síðustu daga. Fjölmargar sögur kvenna af ofbeldi af hálfu landsliðsmanna hafa sprottið fram og urðu viðbrögð KSÍ til þess að mikil pressa var sett á þau sem með valdið fara hjá sambandinu. Guðni Bergsson, formaður sambandsins, sagði af sér sem og stjórn KSÍ og þá er Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, komin í leyfi.

Viðar Halldórsson var í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun þar sem hann ræddi KSÍ-málið. Hann segir þetta stórt mál sem snerti allt íslenskt samfélag, en ekki aðeins fótboltasamfélagið.

„Þetta er náttúrulega risastórt mál í íslensku samfélagi og bara skekur samfélagið. Þarna eru komnar hetjurnar okkar, fallnar af stalli, og fyrirmyndir fyrir börn og ungmenni svo foreldrar vita ekki alveg í hvorn fótinn á að stíga,“ segir Viðar og bætir við:

„Þetta er rosalega stórt mál og rosalega flókið mál í marga staði og við vitum það að þetta með kynferðislegt áreiti gagnvart konum hefur verið um aldir alda en birtist núna með þessum hætti í fótboltanum. En þetta á náttúrulega við allt samfélagið, þetta er það sem konur og stúlkur hafa barist gegn lengi að uppræta þetta og koma þessu upp á yfirborðið, og þetta gerist á öllum sviðum samfélagsins. En það sem er sérstakt í þessu, hjá KSÍ þar sem koma upp mörg mál á skömmum tíma, er að það virðist sem eitthvað hafi farið á verri veg og eitthvað í kúltúrnum sem hefur ýtt undir þetta.“

Kúltúrinn skuli ekki yfirfærður á alla aðra íþróttamenn

Mikið hefur verið rætt um kúltúrinn innan íþrótta og hvernig eitruð karlmennska eigi til að birtast innan íþróttasamfélagsins. Ofbeldismál af hálfu landsliðsmanna séu skýr birtingarmynd þess. Viðar vill hins vegar varast það að öll knattspyrnuhreyfingin, eða allt íþróttasamfélagið á Íslandi, sé sett undir hatt ofbeldismanna vegna þessa máls.

„En talandi um þennan kúltúr sem hefur verið mikið í umræðunni, þá vil ég taka það fram að kúlturinn dæmir ekki alla í íþróttahreyfingunni, og ekki alla í fótbolta, og dæmir ekki alla leikmenn,“

„Kúltúrinn sem slíkur, þegar talað er um klefamenninguna og allt það, þetta eru ekkert allir klefar og það er kannski óþarfi að mála þetta það dökkum litum. Þessir strákar sem eru að fara að spila þennan landsleik annað kvöld, þeir hafa ekkert sér til saka unnið,“ segir Viðar.

Hann segir að frægð leikmanna og frami eigi til að stíga þeim til höfuðs. Það geti leitt til þess að menn misstígi sig, eða jafnvel telji sig yfir aðra hafnir sem geti birst með eins ömurlegum hætti og þeim að menn brjóti kynferðislega á öðrum.

„En þetta birtist kannski með einhverjum hætti af og til og núna hjá nokkrum leikmönnum í sama liði sem að ég svona er með kenningu um að tengist kannski þessum stóra íþróttaheimi og þegar mikill árangur næst, þá eiga íþróttamenn og aðrir kannski til að missa aðeins fótana. Þetta þekkjum við bara með allar stórstjörnur heimsins að þegar vel gengur. Við megum ekki mála þetta of skýrum litum, það eru alls konar hlutir í gangi og alls konar ástæður fyrir því að fólk misstígur sig eða fremur gróft kynferðisbrot, en það er fullt af fólki í íþróttahreyfingunni sem er alveg blásaklaust og kemur ekkert að svona málum og talar ekki svona í klefanum og allt það,“

„Ég hef nefnilega fundið það aðeins í umræðunni, þegar talað er um kúltúr, að þá telja sumir að það séu allir svolítið sekir, sem að er ekkert endilega málið. Þetta birtist með ákveðnum hætti undir ákveðnum ástæðum. segir Viðar sem bætir við: „Þeir sem að brjóta af sér þurfa að sjálfsögðu að vera ábyrgir gjörða sinna og svara fyrir það.“

Verkefni samfélagsins, ekki bara KSÍ

Viðar segir að ofbeldi af þessum toga sé samfélagslegt vandamál sem fyrirfinnist ekki einungis innan íþróttahreyfingarinnar. Hann segir það jákvætt að konur stígi fram og þetta komist upp á yfirborðið til að hægt sé að taka á málum.

„Í fyrsta lagi er þetta mjög sársaukafullt fyrir mjög marga, þessar aðgerðir, þær eru bráðnauðsynlegar, við þurfum að fletta ofan af þessu, við þurfum fá þetta upp á yfirborðið, við þurfum að taka á þessu og tækla þetta. Þannig að þetta er mjög jákvætt að þessi mál koma upp á yfirborðið með þessum hætti því að þá getum við hugsanlega farið lengra í það hvernig við tæklum þessa hluti og þess vegna setur maður upp kenningar um hverjar ástæðurnar geta verið.“

„Hitt er það, hvað getum við gert til að koma í veg fyrir þetta, mér finnst það vera næsta spurning. Hvað getum við lært af þessu, og hvað getum við gert í framtíðinni til þess að sporna gegn þessu og vinna í forvörnum í þessu,“ segir Viðar sem ítrekar samfélagslega hlutann. Það sé ekki aðeins ábyrgð KSÍ að mennta ungt fólk, það liggi einnig hjá foreldrum og hverjum öðrum sem koma að félagsmótun ungs fólks.

„Í því skyni segi ég að þetta er ekki verkefni KSÍ, þetta er verkefni samfélagsins, því þetta er samfélagslegt verkefni sem birtist með þessum hætti og þetta er að sjálfsögðu bara verkefni foreldra, fjölskyldna, skóla, frjálsra félagasamtaka, eins og íþróttafélaga og kirkjunnar og allt það, hvernig við félagsmótum börnin okkar og hvernig við kennum þeim, hvernig uppeldið, hvernig við tölum um kynin, hvaða tækifæri við höfum og fyrirmyndirnar skipta máli. Þannig að við þurfum að taka á því ef að fyrirmyndirnar okkar bregðast með þessum hætti og við þurfum að grandskoða þetta sem samfélag, en ekki eingöngu að horfa á þetta í fótbolta. Þó þetta birtist þar þá þurfum við að horfa á þetta sem samfélag,“ segir Viðar.

Hægt að gera betur í íþróttunum

Viðar kallar eftir bættri menntun íþróttamanna utan vallar. Eitt sé að kenna íþróttina sjálfa, en töluvert betur sé hægt að gera utan vallar. Íþróttasamböndin geti auðveldlega bætt menntun um hegðun utan vallar við landsliðsverkefni hjá ungu fólki.

„Ég held að við getum gert miklu betur í íþróttunum. Til dæmis, af því að nú er verið að tala um landslið. Ég held að, og hef komið með þessa hugmynd áður, að við eigum að taka alla krakka sem koma inn í afrekshópa og yngri landslið og við eigum að skóla þessa krakka til. Við eigum að kenna þeim ekki bara hvernig á að spila fótbolta, handbolta eða körfubolta, heldur skóla þau til um hvernig fyrirmyndir haga sér, og hvernig við göngum frá klefanum okkar, töskunni okkar, stólunum, hvernig tölum við við aðra, hvernig er orðræðan, hvaða orð notum við,“

„Ég held við getum gert þetta miklu, miklu betur, og ég held að þetta sé svolítið verkefnið sem íþróttirnar geta gert. Íþróttirnar þurfa að sjálfsögðu að hafa leiðir ef eitthvað gerist, ef eitthvað kemur upp á, þá þurfa að vera skýr úrræði og stuttar boðleiðir og trúnaður og allt það, þetta kennir okkur það að það þarf að taka á málum og við lærum kannski lexíuna þar.“

„En við þurfum líka að bara taka þetta með því að hjálpa þessu unga fólki okkar, skóla það til, vegna þess að íþróttirnar byggja svolítið á hörku, keppni og þetta er svolítið stríð inni á vellinum og við þurfum að passa að það færist ekki út fyrir völlinn á lífið almennt séð.“ segir Viðar.

Fleira kemur fram í viðtalinu við Viðar sem má heyra í heild sinni að ofan og nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×