Erlent

Bíræfnir bankaræningjar bundu gísla utan á flóttabíla sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki er vitað hve marga gísla ræningjarnir tóku.
Ekki er vitað hve marga gísla ræningjarnir tóku.

Bíræfnir og þungvopnaðir bankaræningjar fóru um miðborg borgarinnar Aracatuba í Brasilíu í morgun og rændu minnst þrjá banka. Skýldu ræningjarnir sér bakvið hóp gísla sem þeir höfðu tekið.

Minnst fimmtíu glæpamenn komu að bankaránunum.

Ræningjarnir eru sagðir hafa tekið fjölda manna í gíslingu og einhver þeirra tóku þeir með sér þegar þeir flúðu. Gíslar voru meðal annars bundnir utan á flóttabíla ræningjanna þegar þeir keyrðu á brott.

Auk þess notuðu ræningjarnir meðal annars sprengiefni og kveiktu elda til að gera lögregluþjónum erfiðara um vik við að standa í hárinu á þeim. Ræningjarnir eru einnig sagðir hafa skotið á lögregluþjóna.

Þá eru ræningjarnir sagðir hafa notað dróna til að fylgjast með ferðum lögreglu í borginni.

Myndbönd og myndir af samfélagsmiðlum sýna óreiðuna sem ríkti í Aracatuba í morgun.

Í frétt BBC segir ekki ljóst hvort einhverjir hafi fallið í átökunum og hvort einhverjir gíslar séu dánir. Miðlar í Brasilíu segja þó einhverja vera dána.

Bankarán þykja algeng í Brasilíu og hefur þeim farið fjölgandi á undanförnum árum. Þar er oft um stóran hóp þungvopnaðra glæpamanna að ræða sem hafa jafnvel látið greipar sópa í heilu borgunum.

Sjá einnig: Þungvopnaðir ræningjar létu greipar sópa í tveimur bæjum Brasilíu

BBC hefur eftir herlögreglu Brasilíu að búið sé að ná tökum á miðbæ Aracatuba, eftir að ræningjarnir fóru þaðan. Ekki liggi fyrir hve marga gísla þeir hafi tekið og hvort þeim hafi verið sleppt.

Hér að neðan má sjá myndbönd af ástandinu í borginni í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.