Sport

Sha'Carri ekki í vina­leit þegar hún keppir við Ólympíu­meistarann um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sha'Carri Richardson hefur breytt um háralit og mætir því ekki appelsínugul til leiks um helgina.
Sha'Carri Richardson hefur breytt um háralit og mætir því ekki appelsínugul til leiks um helgina. Getty/Cliff Hawkins

Bandaríska frjálsíþróttakonan Sha’Carri Richardson er farin að kynda vel upp fyrir athyglisvert spretthlaup sem fer fram um helgina.

Richardson keppir á Prefontaine Classic mótinu og við besti hlauparana á Ólympíuleikunum í Tókýó á dögunum.

Richardson mátti ekki keppa á leikunum í Tókýó eftir að hún féll á lyfjaprófi fyrir að reykja gras.

Hún er mikil týpa og það voru því margir spenntir að sjá hana keppa um gullverðlaun á Ólympíuleikunum. Svekkelsið var því talsvert þegar sigur hennar á bandaríska úrtökumótinu var ógildur.

Sha'Carri sagði frá því að hún hefði leitað í að reykja marijúana eftir að hafa fengið fréttir af því að líffræðileg móðir hennar hefði dáið.

Eftir öll þessi vonbrigði þá fær Sha’Carri tækifæri um helgina til að keppa við allan verðlaunapallinn í 100 metra hlaupinu á ÓL.

Jamaíka átti þrjá fljótustu hlauparana í 100 metra úrslitahlaupinu á Ólympíuleikunum og fengu því gull, silfur og brons. Verðlaunahafarnir þrír, Elaine Thompson-Herah, Shelly-Ann Fraser-Pryce og Shericka Jackson, mun allar mæta til leiks á Prefontaine Classic mótinu og við fáum því úrslitahlaupið sem allir vildu sjá í Tókýó.

Richardson hljóp hundrað metrana á 10,86 sekúndum á úrtökumótinu. Thompson-Herah vann úrslitahlaupið á Ólympíuleikunum á 10,61 og setti nýtt Ólympíumet. Fraser-Pryce og Jackson voru báðar undir fyrrnefndum tíma hjá Richardson.

Sha’Carri birti Tik Tok myndband á Instagram síðu sinni þar sem má sjá hana gera sig klára fyrir keppni helgarinnar.

Hún mætir litrík til leiks og lofaði því líka að það sé ekki markmiðið að eignast vini heldur vinna hlaupið.

„August 21 and I’m not playing nice,“ skrifaði Sha’Carri Richardson við myndbandið eins og sjá má hér fyrir ofan.

„21. ágúst og ég mæti ekki til að eignast vini,“ skrifaði Sha’Carri ef við umorðum þetta á íslensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×