Körfubolti

Gríska undrið fékk kveðju frá á­trúnar­goðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Giannis ætlaði sér ekki alltaf að verða körfuboltamaður.
Giannis ætlaði sér ekki alltaf að verða körfuboltamaður. Jonathan Daniel/Getty Images

Giannis Antetokounmpo, gríska undrið, varð í vor meistari í NBA-deildinni í körfubolta með liði sínu Milwaukee Bucks. Hann vildi þó á sínum tíma alltaf verða atvinnumaður í fótbolta en faðir hans spilaði fótbolta þegar Giannis var ungur.

Giannis kemur frá Grikklandi en foreldrar hans flúðu þangað á sínum tíma frá Nígeríu. Hann hafði lítinn áhuga á körfubolta þangað til á táningsárunum og þá fóru hjólin að snúast. Hann kom inn í NBA-deildina árið 2013 og varð nú í vor loksins meistari með Milwaukee Bucks ásamt því að vera valinn verðmætasti leikmaður úrslita einvígisins.

Hann fékk nýverið skilaboð frá átrúnargoði sínu, fyrrverandi knattspyrnumanninum Thierry Henry sem er í dag aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins. Hann varð á sínum tíma heims- og Evrópumeistari með Frakklandi ásamt því að vinna fjölda titla með Arsenal og Barcelona. Henry sendi Giannis skemmtilega kveðju þar sem hann hrósaði Grikkjanum fyrir árangur sinn og að hafa loksins náð markmiðum sínum, að verða meistari.

„Ég man eftir því þegar þú sagðir mér að þú ætlaðir að vera meistari einn daginn og þú myndir gera allt sem í valdi þínu stæði til að verða meistari. Nú hefur loksins náð því, ég er viss um að þú vitir nú að það er ekki hvernig þú dettur heldur hvernig þú stendur upp. Þú hefur gert það fyrir borgina þína, liðið þitt og sjálfan þig. Þeir reyndu að halda þér niðri en þú hlustaðir ekki á hávaðann og tókst að koma með titilinn, loksins, aftur til Milwaukee. Njóttu vel og sjáumst við tækifæri meistari,“ sagði Henry í kveðju sinni.

„Þetta er brjálað maður. Ég vildi vera eins og hann þegar ég var yngri, því pabbi minn var að spila fótbolta. Svo varð ég ástfanginn af körfubolta. Að fá skilaboð frá honum er samt frábært. Að fá svona skilaboð frá goðsögn, það er stórt.“

„Thierry, þakka þér kærlega fyrir ef þú sérð þetta myndband,“ sagði Giannis að lokum. 

Thierry Henry er í dag aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins eftir farsælan feril sem leikmaður.EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIERFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.