Körfubolti

Milwaukee Bucks NBA-meistari í fyrsta sinn í 50 ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Milwaukee Bucks er NBA-meistari 2021.
Milwaukee Bucks er NBA-meistari 2021. @Bucks

Milwaukee Bucks er NBA-meistari í körfubolta eftir sjö stiga sigur á Phoenix Suns í nótt, lokatölur 105-98.

Eftir að hafa lent 0-2 undir í einvíginu var Milwaukee 3-2 yfir fyrir leik næturinnar og ljóst að sigur myndi tryggja Bucks sinn annan NBA-meistaratitil í sögu félagsins. Sigurinn vannst þökk sé ótrúlegri frammistöðu Giannis Antetokounmpo.

Milwaukee náði góðu forskoti strax í fyrsta leikhluta en leikhlutarnir tveir voru einkar kaflaskiptir. Eftir hörmungarbyrjun þá stigu Devin Booker, Chris Paul og félagar í Suns upp og náðu forystunni áður en fyrri hálfleikur var úti, staðan þá 48-42 Phoenix í vil.

Í þriðja leikhluta steig Giannis upp en hann skoraði 20 stig í þriðja leikhluta og spennan var gífurleg fyrir síðasta fjórðung leiksins. Sá var spennandi allt til loka en þegar 57 sekúndur lifðu leiks setti Khris Middleton niður gríðarlega mikilvægt skot sem kom Milwaukee sex stigum yfir, staðan 102-96 og nokkuð ljóst í hvað stefndi.

Suns tókst ekki að snúa leiknum við og Bucks unnu sinn fyrsta NBA-meistaratitil í 50 ár en liðið varð síðast meistari árið 1971.

Giannis Antetokounmpo átti hreint út sagt ótrúlegan leik í nótt en hann skoraði 50 stig, tók 14 fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Khris Middleton var skoraði 17 stig, Bobby Portis 16 og Jrue Holiday var einu frákasti frá tvöfaldri þrennu, hann skoraði 12 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 9 fráköst.

Hjá Suns var Chris Paul stigahæstur með 26 stig. Devin Booker skoraði aðeins 19 stig og Jae Crowder skoraði 15 stig ásamt því að taka 13 fráköst.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×