Sport

Brons­verð­launa­hafi hætti að taka þung­lyndis­lyf nokkrum mánuðum fyrir ÓL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Noah Lyles kom þriðji í mark í úrslitum í 200 metra hlaupi karla á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Noah Lyles kom þriðji í mark í úrslitum í 200 metra hlaupi karla á Ólympíuleikunum í Tókýó. getty/Tim Clayton

Noah Lyles, sem vann brons í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó, hefur glímt við þunglyndi og var sérstaklega illa haldinn í kórónuveirufaraldrinum.

Lyles var greindur með þunglyndi síðasta sumar og var settur á þunglyndislyf. Honum fannst þau ekki hafa tilætluð áhrif og hætti að taka þau í vor. Lyles fannst erfitt að komast úr hlutlausa gírnum og fann varla fyrir stressi eða spennu fyrir hlaup.

„Lyfin gerðu mig flatan. Þau héldu verstu einkennunum í skefjum en þegar ég reyndi að koma mér í gírinn var ég bara venjulegur og rólegur,“ sagði Lyles í viðtali fyrir Ólympíuleikana.

Lyles segir að þunglyndið hafi ágerst í kórónuveirufaraldrinum. Í vor var hann hins vegar kominn á bataveg og í samráði við lækna ákvað hann að hætta á þunglyndislyfjunum. Og það hafði góð áhrif á hann.

„Skyndilega fann ég aftur tilfinningar. Ég varð stressaður fyrir hlaup sem hafði ekki gerst í fjögur ár. Núna verð ég að yfirstíga óttann en ég nýt þess aftur að hlaupa. Ég vil bara hlaupa og vera frjáls,“ sagði hinn 24 ára Lyles sem varð heimsmeistari í 200 metra hlaupi fyrir tveimur árum.

Lyles ætlaði sér gullverðlaun í 200 metra hlaupi í Tókýó en varð að gera sér bronsið að góðu. Hann hljóp á 19,74 sekúndum.

Kanadamaðurinn Andre De Grasse kom fyrstur í mark á 19,62 sekúndum og Bandaríkjamaðurinn Kenneth Bednarek varð annar á 19,68 sekundum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.