Innlent

Tvöfalt fleiri reyndust smitaðir í Herjólfi

Elma Rut Valtýsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Ljóst er að þrjátíu erlendir ferðamenn voru smitaðir um borð í Herjólfi í fyrradag.
Ljóst er að þrjátíu erlendir ferðamenn voru smitaðir um borð í Herjólfi í fyrradag. Vísir/Vilhelm

Þrjátíu ferðamenn eru komnir í farsóttahús eftir að hafa greinst með kórónuveiruna um borð í Herjólfi. Hópurinn hafði áður gert tilraun til að ferðast til Vestmannaeyja en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn, segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður húsanna.

„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur, margir hafa komið á undanförnum dögum og í gær fengum við stóran hóp sem hafði áður reynt að fara til Vestmannaeyja,“ segir Gylfi en fólkið var á leið til Eyja þegar einn fór að finna fyrir einkennum. Allir reyndust þá vera smitaðir og sendir til baka í einangrun í farsóttahúsi.

Greint var frá því í gær að fimmtán hafi smitast um borð í Herjólfi, en ljóst er að þeir voru tvöfalt fleiri. Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs sagði í samtali við Vísi í gær að einn úr hópnum hefði byrjað að finna fyrir einkennum skömmu fyrir ferðina til Vestmannaeyja og hópurinn því ákveðið að fara í sýnatöku. Þau hafi samt sem áður haldið af stað til Eyja áður en niðurstöður höfðu borist.

Þegar hópurinn var kominn til Vestmannaeyja fengu fimmtán meðlimir hópsins jákvæða niðurstöðu. Ferðamennirnir héldu sér einangruðum inni í rútu og fóru þeir með Herjólfi aftur til Landeyjarhafnar.

Um 250 manns eru nú í einangrun í farsóttahúsunum í Reykjavík og um 160 í sóttkví. Gylfi segist gera ráð fyrir að hægt verði að fækka farsóttahúsum þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi en hún kveður á um að farsóttahús verði framvegis aðeins fyrir þá sem þurfa að vera í einangrun.

„Þá munum við hugsanlega geta farið að loka húsum hægt og rólega og flytja starfsemina á færri staði sem mun létta mikið undir með okkur vegna þess að við erum að senda starfsfólk út og suður og um allar koppagrundir þannig að það verður mun þægilegra fyrir okkur. Vonandi getum við þá lokað einhverjum húsum,“ segir Gylfi.

Aðspurður segir hann verslunarmannahelgina hafa gengið prýðilega, þó mikið hafi verið að gera. „Það hefur svo sem ekki verið neitt froðudiskó hjá okkur en það er búið að ganga mjög vel,“ segir hann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.