Íslenski boltinn

„Sá að hún sneri baki í mig og ákvað að láta smella honum í markið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir kvaddi Stjörnuna með tveimur mörkum.
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir kvaddi Stjörnuna með tveimur mörkum. vísir/vilhelm

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoraði bæði mörk Stjörnunnar þegar liðið sigraði Selfoss, 2-1, í kvöld.

Þetta var síðasti leikur Úlfu fyrir Stjörnuna í bili en hún er á leið til Bandaríkjanna í háskólanám. Hún var að vonum ánægð eftir kveðjuleikinn og sagði að frammistaða Stjörnukvenna í kvöld hafi verið ein þeirra besta í sumar.

„Mér fannst það. Þetta spilaðist mjög vel,“ sagði Úlfa. Stjarnan lenti undir á 15. mínútu en lét það ekki á sig fá.

„Við vissum allan tímann að við myndum koma til baka og vorum með stjórn á leiknum,“ sagði Úlfa.

Hún var færð framar í seinni hálfleik og var mjög ógnandi.

„Við lögðum upp með þetta og þetta gekk mjög vel. Mér leið mjög vel í þessari stöðu og ég fékk mörg færi,“ sagði Úlfa.

Hún skoraði sigurmark Stjörnunnar tíu mínútum fyrir leikslok. Hún lyfti boltanum þá laglega yfir Benedicte Håland í marki Selfoss.

„Ég sá að hún sneri baki í mig og ákvað að láta smella honum í markið,“ sagði Úlfa.

Hún fer til Bandaríkjanna á morgun og þar ætlar hún að fylgjast vel með liðsfélögunum sínum í síðustu leikjum tímabilsins.

„Ég mun styðja þær, horfa á alla leikina og hvetja þær áfram,“ sagði Úlfa að endingu.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.