Sport

Lærisveinn Vésteins sefur ekki á papparúmunum í Ólympíuþorpinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimsmeistarinn Daniel Ståhl þykir líklegur til að vinna gull í kringlukasti á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Heimsmeistarinn Daniel Ståhl þykir líklegur til að vinna gull í kringlukasti á Ólympíuleikunum í Tókýó. getty/Maja Hitij

Sænski kringlukastarinn Daniel Ståhl, sem Vésteinn Hafsteinsson þjálfar, sefur í sérhönnuðu rúmi í Ólympíuþorpinu í Tókýó.

Rúmin í Ólympíuþorpinu eru búin til úr pappa sem verður endurunninn eftir leikana. Þrátt fyrir að vera úr pappa eru rúmin sterk og framkvæmdastjóri Ólympíuþorpsins, Takashi Kitajima, fullyrti að þau þyldu rúm tvö hundruð kíló og væru sterkari en rúm úr tré.

Þótt Ståhl sé ekki tvö hundruð kíló er hann engin smásmíði, 2,02 metrar á hæð og 160 kíló, og hann sefur ekki í papparúmunum heldur í sérhönnuðu rúmi.

„Samstarfsaðili okkar Sleepacy sérhannaði rúm fyrir Daniel,“ sagði Lars Markusson hjá sænsku Ólympíunefndinni. „Þeir hönnuðu líka sérstök slökunarherbergi í herbúðum okkar.“

Ståhl varð heimsmeistari í kringlukasti 2019 og þykir líklegur til afreka á Ólympíuleikunum.

Sem fyrr sagði er Vésteinn Hafsteinsson þjálfari Ståhls. Hann þekkir það vel að þjálfa Ólympíumeistara en lærisveinn hans, Eistlendingurinn Gerd Kanter, vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Ståhl keppti á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 þar sem hann endaði í 14. sæti. Hann endaði í 2. sæti á HM 2017 og EM 2018 en varð svo heimsmeistari í Doha í Katar fyrir tveimur árum. Hann kastaði þá 67,59 metra.

Auk þess að þjálfa Ståhl er Vésteinn einnig þjálfari hinnar sænsku Fanny Roos sem keppir í kúluvarpi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.