Sport

Þjálfarinn sló hana í andlitið rétt fyrir keppni á Ólympíuleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martyna Trajdos í júdóbardaganum sem hún tapaði á móti Szofu Ozbas frá Ungverjalandi.
Martyna Trajdos í júdóbardaganum sem hún tapaði á móti Szofu Ozbas frá Ungverjalandi. EPA-EFE/RUNGROJ YONGRIT

Þýska júdókonan Martyna Trajdos var langt frá því að keppa um verðlaun í júdókeppni Ólympíuleikanna í Tókýó en hún var samt á milli tannanna hjá fólki eftir keppnina.

Hin 32 ára gamla Martyna keppti í mínus 63 kíló flokki í júdó en féll út á móti Szofi Özbas frá Ungverjalandi í 32 manna úrslitum. Trajdos hafði unnið bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu 2019 sem og á Evrópumeistaramótinu 2018.

Verðlaunin á þessum Ólympíuleikum fóru aftur á móti til Clarisse Agbegnenou frá Frakklandi (gull), Tinu Trstenjak frá Slóveníu (silfur) og þeirra Mariu Centracchio frá Ítalíu og Catherinu Beauchemin-Pinard frá Kanada sem fengu báðar brons.

Þáttaka Martynu Trajdos vakti engu að síður athygli vegna þess sem þjálfarinn hennar gerði fyrir viðureign hennar.

Þjálfarinn Claudiu Pusa undirbjó sína konu með því að rífa í hana og slá hana síðan tvisvar í andlitið. Þau fengu vitanlega misjöfn viðbrögð við þessu á samfélagsmiðlum og annars staðar en Martyna fullvissaði heiminn um það og þetta væri það sem hún vildi að þjálfarinn sinn gerði.

Martyna sló meira að segja á létta strengi í færslu sinni á Instagram þar sem var einnig myndband af atvikinu.

„Það lítur út fyrir það að þetta hafi ekki verið nógu fast hjá honum,“ skrifaði Martyna Trajdos.

„Ég vildi óska þess að ég hefði búið til aðra fyrirsögn í dag. Eins og ég hef áður sagt þá er það hefð hjá okkur fyrir keppni. Þjálfarinn minn er bara að gera það sem ég vil hann gerir til að kveikja í mér,“ skrifaði Trajdos.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.