Sport

„Ef ég dey, berð þú þá ábyrgðina“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniil Medvedev var í miklum vandræðum í hitanum og rakanum en tókst samt að tryggja sér sæti í átta manna úrslitunum.
Daniil Medvedev var í miklum vandræðum í hitanum og rakanum en tókst samt að tryggja sér sæti í átta manna úrslitunum. AP/Patrick Semansky

Rússinn Daniil Medvedev er kominn í átta manna úrslit í tenniskeppni Ólympíuleikanna en hann átti í miklum erfiðleikum í hitanum í nótt.

Medvedev komst áfram með því að vinna Fabio Fognini frá Ítalíu 6-2, 3-6 og 6-2. Hann mætir Spánverjanum Pablo Carreno Busta í átta manna úrslitunum.

Medvedev átti í miklum vandræðum í leiknum þegar hitinn og rakastigið gerði honum mjög erfitt fyrir.

Svo illa leit hann út á tímabili að dómari leiksins, Carlos Ramos, spurði hann hreinlega hvort hann gæti haldið áfram. Svarið kom mörgum í opna skjöldu.

„Ég get klárað leikinn en ég get dáið,“ sagði Daniil Medvedev. „Ef ég dey, berð þú þá ábyrgðina,“ hélt Medvedev áfram.

Hann fékk tvisvar sinnum að taka leikhlé og einu sinni að fá þjálfarann sinn til sín.

Medvedev ræddi atvikið eftir leik og sagði að honum hefði verið mikið niðri fyrir á þessum tímapunkti í leiknum.

„Ég vissi ekki hvað ég átti að gera til að líða betur. Ég var tilbúinn að falla niður á völlinn,“ sagði Medvedev.

Spænski tennisspilarinn Paula Badosa var ekki eins heppin því hún fór af velli í hjólastól eftir að hafa fengið hitaslag í leik sínum á móti Marketu Vondrousova í átta manna úrslitum.

Vondrousova sló út Naomi Osaka í gær og hafði unnið fyrsta settið 6-1. Hún er nú komin alla leið í undanúrslitin.

Hitinn fór alla leið upp í 31 stig en vegna rakans þá var eins og það væri 37 stiga hiti.

Tennisfólkið hefur margoft beðið um að leikirnir yrðu færðir fram á kvöld þegar hitinn er minni en ekki hefur verið orðið við þeim sóknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.