Biles dró sig úr keppni eftir fyrstu grein þegar Bandaríkin voru meðal keppnisþjóða í liðakeppni í áhaldafimleikum á Ólympíuleikunum í morgun. Hún táraðist þegar hún útskýrði ákvörðun sína fyrir fjölmiðlum eftir keppni þar sem hún vísaði í andlegt álag.
„Þegar þú lendir í aðstæðum mikils álags áttu til að fríka út,“ sagði Biles. „Ég þarf að einblína á mína andlegu heilsu og ekki setja heilsu mína og vellíðan í hættu,“
„Við þurfum að vernda líkama okkar og huga,“ bætti Biles við. „Það er rosalega erfitt að eiga í baráttu við hugann á sjálfum sér.“
Biles hyggst taka sér dagsfrí, fyrir líkama og sál, á morgun en fram undan eru fjórir keppnisdagar í kjölfarið, sá fyrsti á fimmtudag og svo frá sunnudegi til þriðjudags. Biles vildi ekki staðfesta við fjölmiðla ytra að hún tæki þátt þessa fjóra daga.
— Simone Biles (@Simone_Biles) July 27, 2021
„Við munum taka þetta einn dag í einu. Ég veit að morgun er hálfur dagur, við fáum í það minnsta morguninn í frí. Svo það verður góð andleg hvíld. Við tökum stöðuna þá og sjáum hvað setur.“ hefur CNN eftir Biles.
„Vonandi mun ég fara aftur út á gólfið og keppa í nokkrum greinum til viðbótar,“ sagði Biles.
Biles hefur tryggt sér keppnisrétt í fjórum keppnisgreinum sem munu skiptast yfir áðurnefnda fjóra daga. Heildarkeppni kvenna fer fram á fimmtudag. Á sunnudag verður keppt bæði í stökki og á tvíslá, gólfæfingar eru á mánudag og keppni á jafnvægisslá fer fram á þriðjudag.