Sport

„Þegar ég sá tímann þá var ég smá hissa miðað við hvernig mér leið í vatninu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Sveinn McKee í lauginni í morgun.
Anton Sveinn McKee í lauginni í morgun. epa/VALDRIN XHEMA

Anton Sveinn McKee var vonsvikinn eftir að hann komst ekki áfram í undanúrslit í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Anton synti á 2:11,64 og varð annar í sínum í riðli. Sextán sundmenn komust í undanúrslitin en Anton var í 24. sæti í undanrásunum.

„Þetta er ekki alveg það sem ég var að vonast eftir. En það er ekkert annað að gera en að taka því og finna eitthvað jákvætt til að taka út úr þessu til þess að taka áfram. Maður var búinn að æfa að þessu og því gífurleg vonbrigði og mjög sárt. En maður verður bara að halda áfram,“ sagði Anton í samtali við RÚV eftir sundið í morgun.

Anton byrjaði vel og var fyrstur eftir fyrri hundrað metrana. Á seinni hundrað metrunum dró hins vegar af honum. Hann bjóst samt við að tími hans yrði betri.

„Mér fannst mér líða mjög vel. Þegar ég sá tímann þá var ég smá hissa miðað við hvernig mér leið í vatninu. Ég bjóst við töluvert betri tíma þannig þetta kom mér mjög á óvart,“ sagði Anton.

„Ég bjóst sjálfur núna við að vera í kringum 2,8 sem væri öruggt áfram þannig að það vantaði eitthvað upp á í dag. Það er náttúrulega ömurlegt að æfa endalaust í gegnum covid og allt þetta rugl, koma hingað og ekki standa sig en maður verður bara að bíta í það súra epli.“

Anton hefur keppt á þrennum Ólympíuleikum og útilokar ekki að keppa á þeim fjórðu í París 2024.

„Alla vega ekki eins og planið er núna, þá sjáumst við í París,“ sagði Anton aðspurður hvort Ólympíuleikarnir í Tókýó hefðu verið hans síðustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×