Erlent

Á fjórða hundrað hafa fallið í á­tökum í Suður-Afríku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rúmlega þrjú hundruð hafa fallið í óeirðunum í Suður-Afríku undanfarnar þrjár vikur.
Rúmlega þrjú hundruð hafa fallið í óeirðunum í Suður-Afríku undanfarnar þrjár vikur. AP/Andre Swart

Rúmlega þrjú hundruð hafa fallið í óeirðunum sem skekið hafa Suður-Afríku undanfarnar vikur. Óeirðirnar hófust daginn sem fyrrverandi forseti landsins gaf sig fram við lögreglu og hóf fimmtán mánaða fangelsisafplánun í byrjun mánaðar.

Mikil reiði hefur ríkt meðal Suður-Afríkubúa undanfarnar vikur eftir handtöku Jacobs Zuma, fyrrverandi forseta landsins. Zuma var á dögunum dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir að hafa sýnt dómstóli vanvirðingu þegar hann neitaði að mæta fyrir dómara í tengslum við spillingarrannsókn sem beinist að honum þegar hann gegndi embætti forseta.

Stuðningsmenn Zuma voru fljótir að grípa í heykvíslarnar og hafa óeirðir skekið landið síðan 7. Júlí, daginn sem hann gaf sig fram. Þær hafa verið hvað verstar í heimahéraði Zuma, KwaZulu-Natal, en talið er að 258 hafi fallið í héraðinu. Skrifstofa forseta landsins tilkynnti í gær að 337 hefðu látist.

Ofbeldisaldan er sú blóðugasta frá því að aðskilnaðarstefnan leið undir lok. Nú virðist þó sem ofbeldisölduna sé að lægja en gríðarlegar skemmdir hafa orðið á heimilum og fyrirtækjum eftir óeirðirnar. Talið er að tjónið nemi allt að 170 milljörðum króna.

Þúsundir hafa verið handteknar í óeirðunum og yfirvöld hafa ekki tölu á þeim fjölda sem hefur særst. Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, ávarpaði þjóðina í vikunni og sagði óeirðirnar meðvitaða og skipulagða árás á lýðræðið.

„Það er ljóst núna að atburðir síðustu vikna voru ekkert annað en meðvituð og vel skipulögð árás á lýðræði okkar. Stjórnarskrárskipan lands okkar er ógnað,“ sagði Ramaphosa í ávarpi sínu. 


Tengdar fréttir

Íbúar sagðir vopnast vegna ofbeldis í Suður-Afríku

Minnst sjötíu manns eru dáin vegna öldu ofbeldis sem gengur nú yfir Suðu-Afríku eftir að Jacob Zuma, fyrrverandi forseti, var fangelsaður í síðustu viku. Óeirðir hafa átt sér stað og fólk hefur farið ránshendi um verslanir og heimili.

Zuma gefur sig fram og hefur af­plánun

Fyrrverandi forseti Suður-Afríku, Jacob Zuma, hefur gefið sig fram við lögreglu og hafið afplánun eftir að hafa verið dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi á dögunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.