Viðskipti innlent

Krónan vill rúman milljarð króna í bætur frá ríkinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Krónan rekur 24 matvöruverslanir víða um land.
Krónan rekur 24 matvöruverslanir víða um land. Vísir/vilhelm

Krónan fer fram á ríflega milljarð króna í bætur frá íslenska ríkinu út af meintum hagnaðarmissi á árunum 2015 til 2018 af völdum innflutningshamla sem brutu gegn EES-samningnum. Málið á sér langan aðdraganda og varðar innflutning á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að málið snúist um að tryggja hag neytenda og rétt þeirra gagnvart EES-samningnum. Hún ætli að sjá til þess ef bótakrafan verði samþykkt að fjárhæðin muni skila sér til viðskiptavina Krónunnar. Fyrst var greint frá málinu í Viðskiptablaðinu.

„Þetta er áframhald á máli sem á upphaf fyrir mörgum árum síðan. Við erum að benda á hömlur á innflutningi sem eiga ekki við lög að styðjast og koma bara niður á viðskiptavinum okkar í formi hærra vöruverðs,“ segir Ásta í samtali við Vísi.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. Vísir/Egill

„Krafan er gerð vegna ágóða sem ekki vannst á þessum tíma en við munum nýta okkur þetta sem lágvöruverðsverslun til að lækka verð enn frekar í ákveðnum vöruflokkum og erum að skoða hvernig við gerum það.“

Búið að viðurkenna bótaskyldu ríkisins

Hæstiréttur staðfesti árið 2018 að ríkinu bæri að greiða Ferskum kjötvörum skaðabætur vegna hindrana á innflutningi á ferskum nautalundum. 

Áður hafði EFTA-dómstólinn og Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að reglugerð og ákvæði í lögum um varnir gegn dýrasjúkdómum væru andstæðar EES-samningunum. Reglurnar kváðu á um leyfisskyldu vegna innflutnings á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólkurvörum og kröfu um að kjötvörur væru frystar.

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Krónunnar í málinu, segir að málið snúist nú um það hvernig meta skuli tjón fyrirtækja vegna umræddra innflutningshamla.

Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms og EFTA-dómstólsins höfðaði Krónan mál gegn ríkinu árið 2017 vegna hamla á innflutningi erlendra eggja. Í því máli var gerð réttarsátt þar sem bótaskylda ríkisins var viðurkennd og í kjölfarið var dómkvaddur matsmaður fenginn til að meta tjón verslunarkeðjunnar.

Málið geti verið fordæmisgefandi

Dómkvaddur matsmaður skilaði niðurstöðu sinni í byrjun þessa árs og byggir bótakrafa Krónunnar á því mati. Að sögn Flóka er tap verslunarkeðjunnar af völdum þessara innflutningshamla metið á rétt ríflega milljarð króna.

Niðurstaðan hafi miðað við verð á þessum vörum á innlendum markaði og á innri markaði EES-svæðisins. Flóki segir ljóst að málið geti reynst fordæmisgefandi og fjöldi fyrirtækja myndi fylgja ef bæturnar fáist greiddar.

Hæstiréttur staðfesti árið 2018 að ríkinu bæri að greiða innflutningsfyrirtækinu Ferskum kjötvörum skaðabætur vegna hindrana á innflutningi á ferskum nautalundum.Vísir/Vilhelm

„Málið er auðvitað ákveðið prófmál á umfang bótaskyldu íslenska ríkisins. Málið snýst um dýraheilbrigðiseftirlit sem var viðhaft hérna en átti samkvæmt Evrópureglum bara að vera á upprunastað og svo átti að vera frjálst flæði eftir það,“ segir Flóki í samtali við Vísi.

Reglurnar hafi takmarkað viðskipti með þessar tilteknu vörur.

„Það liggur fyrir að aðildarríki EES-samningsins eru bótaskyld ef þau hafa brotið gegn reglum sem veita borgurunum ákveðin réttindi. Spurningin í þessu máli er hversu víðtæk voru þessi réttindi, nær þetta bara til tjóns sem felst í beinum útlögðum kostnaði af því að flytja inn vörur sem er hafnað í tollinum eða nær bótaskyldan lengra og tekur til þess afleidda tjóns eða rekstrartaps sem þeir aðilar verða fyrir þegar sett er bann við innflutningi á tilteknum vörum.“

Flóki segir að stefnan hafi ekki enn verið birt ríkinu en að stjórnvöld hafi verið upplýst um niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Ríkislögmaður tilkynnti Krónunni í lok júní að bótakröfunni yrði hafnað. Flóki reiknar með að stefnan verði þingfest í byrjun september að loknu réttarhléi Héraðsdóms Reykjavíkur. 


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
MAREL
1,71
23
567.265
ARION
0,31
14
230.706
ICESEA
0,3
8
107.056
KVIKA
0,21
14
242.088
REITIR
0,14
3
129.886

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ISB
-0,92
43
31.190
ORIGO
-0,51
2
25.791
SVN
-0,37
7
18.740
ICEAIR
-0,34
47
70.876
SIMINN
0
3
41.422
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.