Sport

Ekki bara fljótasta mamma allra tíma heldur einnig sú næstfljótasta í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shelly-Ann Fraser-Pryce er í frábæru formi og líkleg til afreka á Ólympíuleikunum í sumar.
Shelly-Ann Fraser-Pryce er í frábæru formi og líkleg til afreka á Ólympíuleikunum í sumar. EPA-EFE/Noushad Thekkayil

Hin jamaíska Shelly-Ann Fraser-Pryce er í frábæru formi í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókýó og það sýndi hún heldur betur um helgina.

Fraser-Pryce hljóp þá hundrað metrana á 10,63 sekúndum á móti í Kingston í Jamaíka en hún hafði hlaupið á 10,84 sekúndum á Demantamóti í Doha í síðustu viku.

Þetta er næstfljótasta hlaup sögunnar en bandaríski spretthlauparinn Florence Griffith-Joyner hljóp á 10,49 sekúndum árið 1988 en setti svo skóna upp á hillu innan við ári síðar.

Hin 34 ára gamla Shelly-Ann Fraser-Pryce vann Ólympíugull í 100 metra hlaupi á ÓL í Peking 2008 og ÓL í London 2012. Hún hefur einnig orðið fjórum sinnum heimsmeistari í þessari grein.

Fraser-Pryce átti best áður hlaup upp á 10,70 sekúndur en það var árið 2012 þegar hún var 25 ára gömul. Nú níu árum síðar þá er hún komin langt inn á fertugsaldurinn og á þriggja ára gamlan son Zyon. Hún hefur samt aldrei verið betri.

Fraser-Pryce hoppaði upp fyrir þær Carmelita Jeter (10,64 sekúndur) og Marion Jones (10,65 sekúndur) á listanum yfir hröðustu hlaup sögunnar.

„Ef ég er alveg hreinskilin þá ætlaði ég mér ekki að hlaupa svona hratt. Ég þakka guði fyrir að sloppið við meiðsli. Það var engin pressa á mér og ég vildi bara ná einu góðu hlaupi fyrir úrtökumótið,“ sagði Shelly-Ann Fraser-Pryce eftir hlaupið.

Hún er ekki bara fljótasta mamma allra tíma heldur er hún líkleg til að bæta við þriðja Ólympíugulli sínu í sumar.

Þar verður þó hörku samkeppni meðal annars frá hinni 21 árs gömlu Sha'Carri Richardson sem átti hraðasta hlaup ársins fyrir helgina og Elaine Thompson-Herah sem vann gull í þessari grein á síðustu Ólympíuleikum.

Þær fljótustu í sögunni í 100 metra hlaupi:

  • Florence Griffith-Joyner (Bandaríkin) 10,49 sekúndur
  • Shelly-Ann Fraser-Pryce (Jamaíka) 10,63
  • Carmelita Jeter (Bandaríkin) 10,64
  • Marion Jones (Bandaríkin) 10,65
  • Elaine Thompson-Herah (Jamaíka) 10,70
  • Sha'Carri Richardson (Bandaríkin) 10,72Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.