Erlent

Banda­ríkja­menn fengu hjálp frá Dönum við njósnir

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ljóst er að danska ríkis­stjórnin hefur vitað af málinu án þess að upp­lýsa um það. Angela Merkel er ein þeirra sem njósnað var um.
Ljóst er að danska ríkis­stjórnin hefur vitað af málinu án þess að upp­lýsa um það. Angela Merkel er ein þeirra sem njósnað var um. getty/Omer Messinger

Banda­ríska þjóðar­öryggis­stofnunin NSA stundaði njósnir á helstu ráða­mönnum í grann­ríkjum Dan­merkur í sam­starfi við dönsku leyni­þjónustuna. Þetta kemur fram í skýrslu sem nor­rænu ríkismiðlarnir greindu frá í sam­starfi við þýska og franska fjöl­miðla.

Meðal þeirra sem NSA njósnaði um voru kanslari Þýska­lands, Angela Merkel, og for­seti landsins Frank-Walter Stein­meier en hann var utan­ríkis­ráð­herra þegar njósnirnar fóru fram. Einnig var njósnað um Peer Stein­brück sem var á þessum tíma kanslara­efni þýska flokksins SPD.

Njósnir NSA komust fyrst upp árið 2013 en nú fyrst hefur verið greint frá þætti dönsku leyni­þjónustunnar í málinu. Heimildar­menn innan dönsku leyni­þjónustunnar láku upp­lýsingunum til fjölmiðla.

Frétt frá 2013:



Vissu af öllum símasamskiptum

Njósnunum var þá ekki að­eins beint að þýskum stjórn­mála­mönnum heldur einnig norskum, sænskum og frönskum ráða­mönnum.

Sam­kvæmt skýrslunni fóru njósnirnar fram í gegn um sam­skipta­kerfi Dan­merkur. Þannig gátu danska leyni­þjónustan og NSA nálgast bæði sím­töl og SMS sem fóru í gegn um dönsk kerfi.

Danski ríki­smiðillinn segir að enn hafi ekki tekist að fá svör um hversu marga NSA njósnaði um ná­kvæm­lega með þessum hætti. Sam­kvæmt heimildar­manni miðilsins voru það þó stjórn­mála­menn sem leyni­þjónustur hefðu „al­mennt á­huga á“, til dæmis for­sætis- og utan­ríkis­ráð­herrar.

For­seti Þýska­lands, Stein­meier, hefur kallað málið hneyksli og gagn­rýnt það að Danir hafi njósnað um grann­ríki sín. Angela Merkel hefur enn ekki tjáð sig um málið en tals­maður ríkis­stjórnarinnar segir að hún hafi verið upplýst um það.

Sam­kvæmt frétt danska miðilsins hefur ríkis­stjórn Dan­merkur haft vit­neskju um sam­starf leyni­þjónustunnar við Banda­ríkja­menn að minnsta kosti frá því að skýrslan var gerð árið 2015. Dönsk yfir­völd neyddu þá alla yfir­menn leyni­þjónustunnar til að láta af störfum í fyrra vegna málsins.


Tengdar fréttir

Utanríkisráðherra Frakka segir njósnir NSA "óásættanlegar"

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, hefur kallað bandaríska sendiherrann í Frakklandi til fundar vegna meintra njósna. Frétt í Le Monde í morgun leiðir í ljós að bandaríska Þjóðaröryggisstofnunin, NSA, safnaði saman gögnum um fleiri en 70 milljónir símtala í Frakklandi á mánaðar tímabili um og eftir síðustu áramót.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×