Sport

Söguleg stökk þegar Stjarnan vann tvöfalt

Valur Páll Eiríksson skrifar
unnamed

Stjarnan kom, sá og sigraði á bikarmeistaramótinu í hópfimleikum sem fram fór Garðabæ í gær. Á mótinu sáust tvö stökk sem ekki hafa sést áður í keppni á Íslandi.

Kvennalið Stjörnunnar vann titilinn sjötta árið í röð er það fékk 57.3 stig; 22.5 á gólfi, 17.45 á dýnu og 17.35 á trampólíni. Lið Gerplu varð í öðru sæti með 55.7 stig og Stjarnan 2 í þriðja sæti með 53.25 stig.

Það var hins vegar Valgerður Sigurfinnsdóttir úr Gerplu sem vakti hvað mesta athygli á mótinu. Hún varð fyrsta konan til að framkvæma þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu á hópfimleikamóti hér á landi. Auk þess framkvæmdi hún svokallað kasamatsu-stökk með heilli skrúfu á hesti sem ekki hefur sést hér á landi.

Í karlaflokki mættu tvö lið til keppni sem bæði komu frá Stjörnunni. Lið Stjörnunnar 1 sigraði með 59.0 stig en Stjarnan 2 fékk 42.6 stig.

Eysteinn Máni Oddsson framkvæmdi þar þrefalt heljarstökk með beinum líkama og hálfri skrúfu, eitthvað sem hefur ekki heldur sést áður á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×