Erlent

Konur eigi rétt á bótum vegna PIP-brjóstapúðanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Þýska fyrirtækið TUV Rheinland er talið hafa sýnt af sér vanrækslu þegar það vottaði PIP-púðana örugga jafnvel þó að þeir stæðust ekki öryggiskröfur.
Þýska fyrirtækið TUV Rheinland er talið hafa sýnt af sér vanrækslu þegar það vottaði PIP-púðana örugga jafnvel þó að þeir stæðust ekki öryggiskröfur. Vísir/EPA

Franskur áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að á þriðja þúsund kvenna sem fengu svonefnda PIP-brjóstapúða ættu að fá skaðabætur. Lögmaður íslenskra kvenna sem taka þátt í hópmálsókn vegna púðanna segir niðurstöðuna áfangasigur.

Brjóstapúðar sem franska fyrirtækið Poly Implant Prothese (PIP) framleiddi frá 2001 til 2010 ollu konum heilsutjóni um víðan heim. Fyrirtækið reyndist hafa notað ódýrt iðnaðarsílikon í púðana sem voru ekki ætlað til notkunar í mönnum og byrjuðu margir púðanna að leka. Talið er að allt að 400.000 konur hafi fengið ólöglegu brjóstapúðana.

Málið í Frakklandi er gegn þýska fyrirtækinu TUV Rheinland sem gaf púðunum öryggisvottun. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði sýnt af sér vanrækslu.

Rúmlega tvö hundruð íslenskar konur hafa tekið þátt í annarri hópmálsókn sem var höfðuð vegna PIP-púðanna. Reuters-fréttastofan segir að niðurstaða franska dómstólsins geti haft þýðingu fyrir þúsundir kvenna um allan heim.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður íslensku kvennanna, segir niðurstöðuna jákvæða en hún ætlar að funda með erlendu lögmönnunum sem reka málið í Frakklandi í dag.

„Þetta er enn einn áfangasigurinn og boðar vonandi jákvæða niðurstöðu. Maður vill auðvitað ekki fagna fyrr en þetta er komið fast í hendi frá æðsta dómstól landsins,“ segir hún við Vísi.

Hópmálsóknin sem áfrýjunardómstóllinn úrskurðaði um í dag hefur velkst fyrir frönskum dómstólum um árabil. Annar áfrýjunardómstóll taldi TUV Rheinland ekki skaðabótaskylt en hæstiréttur Frakklands vísaði málinu svo aftur niður á áfrýjunarstigið.

Í yfirlýsingu sem Saga Ýrr sendi frá sér vegna niðurstöðunnar í dag sagðist hún telja allar líkur á að TUV Rheinland áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar Frakklands. Engu að síður lítu út fyrir að nú hilli undir endanlega niðurstöðu í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×