Innlent

Ríkis­sak­sóknari skipar lög­reglu­stjóranum á höfuð­borgar­svæðinu að taka upp rann­sókn líkams­á­rásar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglustjórinn komst að þeirri niðurstöðu að of langt væri liðið frá árásinni og að orð stæði gegn orði.
Lögreglustjórinn komst að þeirri niðurstöðu að of langt væri liðið frá árásinni og að orð stæði gegn orði. Vísir/Eyþór

Ríkissaksóknari hefur fellt niður ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá því í febrúar síðastliðnum um að hætta rannsókn á ofbeldismáli, meðal annars vegna þess að lögregla óskaði ekki eftir myndum af áverkum né ræddi við vitni.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

„Þessari niðurstöðu ríkissaksóknara tek ég fagnandi og fæ aftur trú á réttlætinu en núna er það í höndum lögreglunnar að rannsaka þetta mál aftur og þá með öllum gögnum og vitnum málsins,“ hefur blaðið eftir Lindu Gunnarsdóttur, sem kærði árásina.

Atvik voru þannig að Linda sleit sambandi við þáverandi sambýlismann árið 2015 eftir að hafa komist að því að hann hélt framhjá henni. Að hennar sögn kýldi maðurinn hana og sló ítrekað og hrinti henni í gólfið.

Leitaði Linda á bráðamóttöku en samkvæmt áverkavottorði var hún með átta áverka og var meðal annars viðbeinsbrotin. 

Linda kærði árásina í fyrra en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað í febrúar síðastliðinn að hætta rannsókn málsins, þar sem langt væri um liðið og orð stæði gegn orði. Maðurinn hélt því fram að Linda hefði ráðist á sig og dottið.

„Eftir yfirferð gagna málsins telur ríkissaksóknari rannsókn þess ekki lokið,“ segir í rökstuðningi embættisins til kæru Lindu og lögreglustjóra sagt að „taka málið til rannsóknar og þóknanlegrar meðferðar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.