Innlent

Að minnsta kosti 22 börn og nítján starfsmenn með Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leikskólinn Jörfi, Hæðagarði.
Leikskólinn Jörfi, Hæðagarði. Vísir/Vilhelm

Á miðvikudaginn höfðu 22 börn á leikskólanum Jörfa og nítján starfsmenn greinst með Covid-19. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir ljóst að ekki verði hægt að halda úti hefðbundnu skólastarfi á leikskólanum í næstu viku.

Auk þeirra barna og starfsmanna sem nú eru í einangrun hafa fimmtán fjölskyldumeðlimir þeirra einnig greinst með veiruna. Í dag verða þeir skimaðir öðru sinni sem greindust ekki í upphafi og sætt hafa sóttkví síðastliðna viku.

Um hundrað börn eru á leikskólanum og 33 starfsmenn.

Helgi segir unnið að því að skipuleggja skólastarfið í Jörfa í næstu viku en ekki muni liggja fyrir hvernig það verður fyrr en endanlega liggur fyrir hversu margir hafa smitast. Fram hefur komið að leikskólastjórinn er þeirra á meðal.

„Við erum að reyna að fá fólk í gegnum afleysingaþjónustuna okkar en það er alveg ljóst að þetta hefur áhrif á starfið og við munum eflaust biðla til foreldra barna á Jörfa að hafa börnin sín heima í næstu viku, eins og kostur er,“ segir Helgi.

Líklega verður takmarkað hversu marga daga hvert barn getur mætt.

„Við skilum mjög vel að þetta er erfið staða fyrir foreldrana en þegar svona margir starfsmenn eru veikir þá er því miður ekki hægt að halda úti fullri starfsemi,“ segir Helgi. „Þetta verður samvinnuverkefni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×