Erlent

Litlu Marsþyrlunni tókst ætlunarverkið

Kjartan Kjartansson skrifar
Skuggi þyrilvængjunnar Ingenuity þegar hún hóf sig til lofts á Mars að morgni mánudagsins 19. apríl 2021.
Skuggi þyrilvængjunnar Ingenuity þegar hún hóf sig til lofts á Mars að morgni mánudagsins 19. apríl 2021. NASA/JPL

Fyrsta tilraunaflug þyrilvængjunnar Ingenuity á reikistjörnunni Mars gekk að óskum í morgun. Leiðangursstjórn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA bárust fyrstu gögnin sem staðfestu að þyrlan hefði flogið og fyrstu myndirnar af tilrauninni.

Ingenuity hóf sig á loft á rauðu reikistjörnunni klukkan 7:30 að íslenskum tíma í morgun og var þannig fyrsta manngerða farið til þess að fljúga undir eigin afli á öðrum hnetti. Vegna fjarlægðarinnar á milli Mars og jarðarinnar fékk NASA ekki staðfestingu á að tilraunin hefði virkað fyrr en um klukkan ellefu að íslenskum tíma.

Fögnuður braust út hjá Ingenuity-teyminu þegar gögn úr hæðarmæli sýndu að litla þyrlan hefði svifið í þriggja metra hæð í um fjörutíu sekúndur. Ekki minnkaði gleðin þegar mynd barst neðan úr þyrlunni sem sýndi skugga hennar á rykugu yfirborði reikistjörnunnar og síðan önnur úr könnunarjeppanum Perseverance sem stóð álengdar og fylgdist með.

Þyrilvængjunni er aðeins ætlað að kanna aðstæður til flugs á Mars en engin vísindatæki eru um borð í henni. Töluvert erfiðara er að fljúga á Mars en á jörðinni þrátt fyrir að þyngdarkrafturinn á Mars sé aðeins þriðjungur af þeim á jörðinni. Lofthjúpur Mars er næfurþunnur, aðeins um 1% af þykkt þess jarðneska. Því þurfa þyrilblöð Ingenuity að snúast 2.500 sinnum á mínútu til þess að ná flugi, um fimmfalt hraðar en hún þyrfti á jörðinni.

Ætlunin er að gera fleiri tilraunir með Ingenuity á Mars, allt að fimm flugferðir þar sem þyrilvængjan hættir sér lengra. Þegar tilraununum með Ingenuity er lokið heldur Perseverance, sem lenti á Mars í febrúar, áfram vísindaleiðangri sínum.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×