Ingenuity hóf sig á loft á rauðu reikistjörnunni klukkan 7:30 að íslenskum tíma í morgun og var þannig fyrsta manngerða farið til þess að fljúga undir eigin afli á öðrum hnetti. Vegna fjarlægðarinnar á milli Mars og jarðarinnar fékk NASA ekki staðfestingu á að tilraunin hefði virkað fyrr en um klukkan ellefu að íslenskum tíma.
Fögnuður braust út hjá Ingenuity-teyminu þegar gögn úr hæðarmæli sýndu að litla þyrlan hefði svifið í þriggja metra hæð í um fjörutíu sekúndur. Ekki minnkaði gleðin þegar mynd barst neðan úr þyrlunni sem sýndi skugga hennar á rykugu yfirborði reikistjörnunnar og síðan önnur úr könnunarjeppanum Perseverance sem stóð álengdar og fylgdist með.
"Ingenuity has performed its first flight the first flight of a powered aircraft on another planet!"
— NASA (@NASA) April 19, 2021
The data reveals: Our #MarsHelicopter has had a successful first flight: pic.twitter.com/h5a6aGGgHG
Þyrilvængjunni er aðeins ætlað að kanna aðstæður til flugs á Mars en engin vísindatæki eru um borð í henni. Töluvert erfiðara er að fljúga á Mars en á jörðinni þrátt fyrir að þyngdarkrafturinn á Mars sé aðeins þriðjungur af þeim á jörðinni. Lofthjúpur Mars er næfurþunnur, aðeins um 1% af þykkt þess jarðneska. Því þurfa þyrilblöð Ingenuity að snúast 2.500 sinnum á mínútu til þess að ná flugi, um fimmfalt hraðar en hún þyrfti á jörðinni.
You wouldn’t believe what I just saw.
— NASA's Perseverance Mars Rover (@NASAPersevere) April 19, 2021
More images and video to come...#MarsHelicopterhttps://t.co/PLapgbHeZU pic.twitter.com/mbiOGx4tJZ
Ætlunin er að gera fleiri tilraunir með Ingenuity á Mars, allt að fimm flugferðir þar sem þyrilvængjan hættir sér lengra. Þegar tilraununum með Ingenuity er lokið heldur Perseverance, sem lenti á Mars í febrúar, áfram vísindaleiðangri sínum.
Fréttin hefur verið uppfærð.