Fótbolti

Vara­maðurinn I­cardi hélt titil­vonum PSG á lífi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn PSG fagna sigurmarkinu í dag.
Leikmenn PSG fagna sigurmarkinu í dag. @brfootball

Þó Paris Saint-Germain sé komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þá hafa yfirburðir þeirra heima fyrir dvínað og er liðið sem stendur í 2. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

PSG tók á móti Saint-Étienne í dag. Segja má að leikurinn hafi verið vægast sagt kaflaskiptur en staðan var markalaus í hálfleik. Mauricio Pochettino gerði fjölda skiptinga í síðari hálfleik til að reyna sækja stigin þrjú og segja má að það hafi gengið eftir.

Þeir Angel Di Maria, Marco Veratti, Mauro Icardi og Colin Dagba komu allir inn af bekknum um miðbik síðari hálfleiks en þá var staðan enn markalaus.

Það voru hins vegar gestirnir sem tóku forystuna á 78. mínútu með marki Denis Bouanga. Það virðist hafa vakið heimamenn af værum blundi en Kylian Mbappé jafnaði metin strax í næstu sókn eftir undirbúning Ander Herrera.

Mbappé fiskaði svo víti sem hann skoraði sjálfur úr þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Staðan orðin 2-1 og þannig var hún þegar uppbótartími leiksins hófst. Romain Hamouma jafnaði metin fyrir St. Étienne og staðan orðin 2-2 þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma.

Það var svo á fjórðu mínútu uppbótartíma sem Icardi tryggði PSG 3-2 sigur eftir sendingu Di Maria. Argentísku varamennirnir allt í öllu er Parísarliðið tryggði sér dýrmætan sigur í toppbaráttunni.

Þegar fimm umferðir eru eftir af Ligue 1, frönsku úrvalsdeildinni, er PSG í 2. sæti með 69 stig en Lille trónir á toppi deildarinnar með 70 stig. Lille mætir Lyon, sem situr í 3. sæti, í næstu umferð og því gætu lærisveinar Pochettino verið komnir á toppinn áður en langt um líður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×