Körfubolti

Vonir Den­ver dvína með meiðslum Murray

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Murray féll til jarðar er hann keyrði að körfunni í leik Denver gegn Golden State.
Murray féll til jarðar er hann keyrði að körfunni í leik Denver gegn Golden State. Getty Images

Ekki nóg með að Denver Nuggets hafi tapað gegn Golden State Warriors á aðfaranótt þriðjudags heldur hefur liðið misst aðra af stjörnum sínum í meiðsli, og það til lengri tíma.

Jamal Murray sleit krossband í hné í tapinu gegn Warriors og verður því ekki meira með á þessari leiktíð og missir eflaust af upphafi næstu leiktíðar. Denver hefur þó ekki enn gefið út hversu lengi hann verður frá en menn koma ekki svo glatt til baka eftir að slíta krossbönd.

Murray var að keyra í átt að körfunni en um leið og hann ætlaði að lyfta sér upp var eins slitnaði annað af krossböndunum í vinstra hné. Hann féll til jarðar og þó hann hafi neitað því að fá hjólastól til að komast af vellinum var ljóst að verkurinn var mikill.

Denver staðfesti svo í gær að Murray væri með slitið krossband og yrði ekki meira með á þessari leiktíð.

Þetta er áfall fyrir Denver en Murray er með 21.2 stig að meðaltali í leik ásamt 4.8 stoðsendingum. Hann er annar af lykilmönnum Denver en Jókerinn, Nikola Jokić, er hinn.

Denver er sem stendur í 4. sæti Vesturdeildarinnar með 34 sigra og 20 töp í 54 leikjum til þessa. Liðið sótti þá JaVale McGee og Aaron Gordon áður en félagaskiptaglugginn lokaði til að fjölga í hópnum í þeirri von um að fara langt í úrslitakeppninni.

Nú er ljóst að enn meiri ábyrgð fellur á herðar Jokić en hann er af mörgum talinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar á þessu tímabili. Hvort það endist þegar komið er í úrslitakeppnina verður að koma í ljós.

Josh Hart, leikmaður New Orleans Pelicans, vill meina að alltof stutt hafi verið frá enda síðustu leiktíðar til upphafs þessarar og þá séu liðin að spila alltof þétt. Það sé ástæðan fyrir gríðarlegum fjölda meiðsla í deildinni til þessa.

Hart gæti haft eitthvað til síns máls en árið 2012 var tímabilið spilað hraðar en önnur ár og meiðslatíðni jókst til muna. 

Hvað sem því líður þá þarf Denver að finna lausnir við fjarveru Murray sem fyrst því liðið mætir ríkjandi meisturum Los Angeles Lakers í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eins og staðan er í dag.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×