Körfubolti

Tók fram úr Wilt Cham­berlain og er nú stiga­hæstur í sögu Golden Sta­te

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steph Curry er nú stigahæsti leikmaður í sögu Golden State Warriors.
Steph Curry er nú stigahæsti leikmaður í sögu Golden State Warriors. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Steph Curry varð í nótt stigahæstu leikmaður í sögu Golden State Warriors er hann skoraði 53 stig í sigri á Denver Nuggets, lokatölur 116-107.

Curry fór í nótt fram úr hinum goðsagnakennda Wilt Chamberlain sem stigahæsti leikmaður í sögu Golden State Warriors frá upphafi. Chamberlain skoraði á sínum tíma 17.783 stig fyrir félagið. Það var því ljóst fyrir leik að ef Curry myndi halda sínu striki þá væri metið hans.

Það tókst þegar innan við tvær mínútur voru af fyrsta leikhluta.

„Þetta er brjálað. Þegar þú heyrir nafnið hans [Wilt Chamberlain], og að vera þarna í sömu andrá, er ótrúlegt. Sum af metunum hans verða aldrei slegin held ég. Maður veit hversu frábær leikmaður hann var,“ sagði Curry að leik loknum.

„Ég man ekki hversu marga leiki hann spilaði fyrir Warriors eða hversu marga ég hef spilað. Að vera nálægt honum í sögubókunum, hvað þá fyrir ofan hann, er ótrúlegt. Ef þú fylgist með körfubolta þegar þú elst upp þá veistu að það var sérstakt þegar hann er nefndur á nafn,“ sagði Steph að lokum.

Curry hélt upp á daginn með því að bjóða gestum og gangandi – þeim fáu sem mega mæta á leiki deildarinnar - upp á sýningu. Hann skoraði 53 stig, þar af 30 úr þriggja stiga skotum eða alls tíu talsins. Hann hefur nú skorað 17.818 stig í NBA-deildinni.

Þetta var í þriðja sinn sem Curry skorar 50 stig eða meira í leik á tímabilinu. Hann hefur skorað 30 stig eða meira í sjö leikjum í röð. Það er ljóst að ef Golden State kemst í úrslitakeppnina þá er það allt Steph að þakka.

Liðið er sem stendur í 10. sæti Vesturdeildarinnar með 26 sigra og 28 töp.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.