Innlent

Bíða með að opna nýtt sóttvarnarhús

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gylfi segir að almennt séu mun færri í hverri vél en búist sé við hverju sinni. Aðeins tíu manns hafi verið í vél frá London í gær.
Gylfi segir að almennt séu mun færri í hverri vél en búist sé við hverju sinni. Aðeins tíu manns hafi verið í vél frá London í gær. Vísir/Vilhelm

Áformum um opnun nýs sóttkvíarhótels í Reykjavík hefur verið slegið á frest um sinn. Farþegafjöldi til landsins er umtalsvert minni en áætlað var og í gær voru aðeins tíu manns í vél sem kom hingað frá London.

„Það er ekki nema ein vél sem kemur í dag og hún er frá Kaupmannahöfn, en við búumst ekki við mörgum þaðan,” segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttahúsanna.

Búist var við að hótelið við Þórunnartún myndi fyllast í dag því átta vélar komu til landsins í gær og fjórar vélar eru væntanlegar á morgun. „Það komu einungis um fjörutíu gestir úr þessum átta velum þannig að staðan hjá okkur núna er bara mjög góð.”

Fyrirhugað var að nýta Hótel Barón sem sóttvarnarhús og taka það í notkun í gær. 

„Þar hafa staðið yfir framkvæmdir sem náðist ekki að ljúka fyrir gærdaginn. Þannig að við þurftum að setja þær fyrirætlanir á ís. Við getum ekki verið með sýnatökuna þar og svo fram vegns, en ef þetta heldur svona áfram, að við náum að tæma fleiri herbergi en við fyllum þá dugar þessi bygging okkur næstu tvo til þrjá dagana,” segir Gylfi.

Norræna kemur til hafnar á morgun og er þá búist við að það fjölgi í sóttvarnarhúsinu á Egilsstöðum. Þá fer seinni sýnataka fram hjá bróðurparti gesta í Reykjavík á morgun.

„Á morgun er stór dagur í sýnatöku, hjá yfir hundrað manns, þannig að við ættum að ná að losa einhver 150 eða 160 herbergi á þessum tveimur dögum. Það hjálpar okkur mikið.”

Það sé hins vegar ómögulegt að spá fyrir um fjölda fólks hverju sinni.

„Við siglum alltaf svolítið blint í sjóinn. Í London vélinni í gær voru til dæmis ekki nema einhverjir tíu farþegar í vélinni allri. Þannig að það sýnir það að það er að draga úr straumi fólks hingað.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.