Sport

Snjóbrettarisinn fagnar komu Ylfu

Sindri Sverrisson skrifar
Ylfa Rúnarsdóttir stökk inn í Burton-fjölskylduna með því að sýna mögnuð tilþrif.
Ylfa Rúnarsdóttir stökk inn í Burton-fjölskylduna með því að sýna mögnuð tilþrif. burton.com og skjáskot/The Uninvited II

Snjóbrettakonan Ylfa Rúnarsdóttir er ein þeirra útvöldu sem þekktasta fyrirtækið í snjóbrettaheiminum, Burton, hefur valið inn í sína „fjölskyldu“.

Ylfa var útnefnd nýliði ársins af Slush Magazine í vetur eftir að hafa sýnt mögnuð tilþrif á brettinu, til að mynda í myndinni The Uninvited II sem sjá má hér að neðan (Tilþrifakafli Ylfu byrjar eftir 15 mínútur og 10 sekúndur).

Með því að hafa þrætt nálaraugað og komist inn í Burton-fjölskylduna aukast enn tækifæri Ylfu til að þróa sinn stíl og ná lengra í snjóbrettaheiminum.

Ylfa, sem er 26 ára, er fædd á Íslandi og uppalin í Árbænum þar sem hún reyndi fyrst fyrir sér á snjóbretti þrettán ára gömul. 

Hún varð strax ástfangin af íþróttinni og eftir að hafa sinnt henni eftir fremsta megni hér á landi, meðal annars með því að húkka sér far upp í Bláfjöll, flutti hún 15 ára gömul til Svíþjóðar, þar sem hún býr enn. Þar fór Ylfa meðal annars í menntaskóla þar sem hún gat sinnt íþrótt sinni af fullum krafti, og nú er hún orðin ein af Burton-fjölskyldunni.

Á Twitter-síðu Burton var inngöngu Ylfu fagnað í gær.

„Eitt af því sem hefur virkilega náð til mín er markmið Burton um að gera konur sýnilegri. Ég vil taka þátt í því,“ sagði Ylfa í viðtali við Pleasure Snowboard Magazin fyrr í vetur.

„Þegar ég hugsa um Burton þá hugsa ég um litríkar myndir og sögur sem ég hef heyrt og séð frá snjóbrettalífinu á 10. áratugnum. Burton er risastór hluti af snjóbrettasögunni og það hefur mikla þýðingu fyrir mig að geta tekið þátt í því,“ sagði Ylfa og kvaðst hlakka til að halda áfram að tjá sig með brettafimi sinni og ryðja brautina fyrir stelpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×