Innlent

Suðri gefur eftir en Norðri gefur í

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hraun spýtist upp úr tveimur gígum í Geldingadölum á Reykjanesi. Suðri er að gefa eftir meðan Norðri bætir í.
Hraun spýtist upp úr tveimur gígum í Geldingadölum á Reykjanesi. Suðri er að gefa eftir meðan Norðri bætir í. Vísir/Vilhelm

Lítið lát virðist á hraunrennsli úr gosstöðvunum í Geldingadölum. Mesta breytingin upp á síðkastið er sú að meiri kraftmunur er á virkni úr gígunum tveimur en áður. Gígarnir hafa fengið viðurnefnin Norðri og Suðri, til aðgreiningar.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands.

„Norðri hefur gefið aðeins í og einkennist virknin af sveiflukenndu sígosi sem viðheldur 10-15 m hárri kvikustrókanefnu. Töluvert magna af kvikustróka-slettunum frá honum fellur í og sameinast hraunstraumnum sem vellur út úr gígnum. Þetta endar kannski með að flæðið frá Norðra breytist í fallegt kvikustrókahraun? Eitthvað virðist hafa dregið úr Suðra, en samt puðrar hann áfram. Hraunkvikan stendur hátt í honum, gosopið virðist hafa þrengst og barmarnir hækkað,“ segir í færslunni.

Þar kemur fram að þetta sé dæmigert fyrir aflminni virkni, eða suðu, sem drifin er áfram af einstökum blöðrusprengingum og kasta slettunum einungis upp á veggina umhverfis gígopið. Við það hækka veggirnir hraðar en annars.

„Athugið, stærstu gígarnir, eru myndaðir af aflminnstu virkninni og á löngum tíma – einfaldlega vegna þess að virknin hefur ekki aflið til þess að dreifa gosefnunum og þess vegna hlaðast þau upp í kringum gígopið. Jafnframt fellur stöðugur taumur hrauns frá Suðra og stendur útflæðið töluvert hærra en í Norðra. Þannig að enn þá virðist engin samgangur vera með gígunum, a.m.k. ekki í allra efsta hluta gosrásarinnar.“


Tengdar fréttir

Rauðglóandi hraunið í rökkrinu

Færri komust að en vildu til að berja eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesi augum í gærkvöldi. Þeir sem þangað komu fengu að njóta náttúruaflanna og fylgjast með rauðglóandi hrauninu vella upp úr eldkeilunni sem hefur verið að myndast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.